Innlent

Sundabrautarmálið aftur á byrjunarreit?

MYND/Vísir

Meirihlutinn í borgarstjórn er kominn aftur á byrjunarreit í Sundabrautarmálinu að mati fulltrúa sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Fulltrúi meirihlutans vísar þessu á bug og kennir prófkjörsskrekk um yfirlýsingagleði sjálfstæðismanna.

Mikið hefur verið rætt um undanfarin ár hvaða leið eigi að fara í fyrirhuguðum framkvæmdum við Sundabraut. Meðal annars hefur verið rætt um svokallaða landfyllingarleið, eða innri leið, og var bókað á borgarstjórnarfundi í september síðastliðnum að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt meðþað að markmiði að sú leið yrði farin.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, var gestur í þættinum Íslandi í bítið á Stöð 2 í morgun. Þar sagði hún að á fundi borgarstjórnar í fyrradag hefðu fulltrúar meirihlutans í borginni snúið frá því sem talað hefði verið um á borgarstjórnarfundinum í september. Málið væri því komið aftur á byrjunarreit að hennar mati.

Hanna Birna sagði í samtali við fréttastofuna í dag að bæði Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi hafi tilkynnt á borgarstjórnarfundinum á þriðjudag að þau teldu nú ekkert fast í hendi hvað Sundabraut varðar og allt eins gæti leið þrjú, eða svokölluð ytri leið, orðið fyrir valinu. Því sé ljóst að eina ferðina enn ætli vinstri meirihlutinn að tefja málið.

Stefán Jón segir þetta af og frá. Settir hafi verið fyrirvarar á fundinum í september um samþykki íbúa beggja vegna við Elliðavog, og þeir fyrirvarar séu enn í fullu gildi. Í borgarstjórn í fyrradag segist hann einfaldlega hafa spurt fulltrúa Sjálfstæðisflokks hvort þeir væru til í, ef ekki verði unað við fyrirvarana, að „koma í slaginn að flýta því að fara ytri leiðina." Þannig hafi skapast allur þessi „hasar". Stefán kvaðst þó skilja að sjálfstæðismenn séu taugatrekktir í prófkjörsvikunni.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×