Innlent

Um 4.000 greitt atkvæði hjá Sjálfstæðismönnum

Tæplega fjögur þúsund sjálfstæðismenn höfðu greitt atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar kjörfundi lauk klukkan níu í kvöld. Þar af höfðu 1.200 greitt atkvæði utan kjörfundar.

Kjörfundur hefst aftur um tíu-leytið í fyrramálið og verður hægt að greiða atkvæði á sex til sjö stöðum í borginni, þar á meðal í Valhöll.

Búist er við að talningu verði lokið seint í kvöld, lílklega milli ellefu og tólf. Fyrstu tölur verða kynntar um sex leytið og er gert ráð fyrir að tölurnar verði birtar á hálftíma fresti fram eftir kvöldi, hugsanlega oftar ef ástæða þykir til.

Tölurnar verða birtar á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, x-d.is, og í beinni útsendingu í fjölmiðlum. Frambjóðendur eru 24 talsins og geta þátttakendur raðað frambjóðendum í níu sæti.

Mesta spennan ríkir um það hvor ber sigur af hólmi, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi og oddviti flokksins, eða Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður en báðir stefna þeir á fyrsta sætið á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×