Innlent

Mörður snuprar Stefán Jón

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar MYND/Sigurður Jökull

"Þetta gerir maður nú eiginlega ekki, Stefán Jón", segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, í pistli á heimasíðu sinni og á þar við auglýsingu samflokksmanns síns, Stefáns Jóns Hafstein, í Fréttablaðinu í dag. Mörður vitnar meðal annars í línur í Passíusálmunum þar sem talað er um hræsni.

Stefán Jón sækist eftir því að verða efstur á lista Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum næsta vor og er auglýsingin birt í tengslum við þá ætlun hans. Mörður gagnrýnir að Stefán Jón skuli nota merki Samfylkingarinnar í auglýsingunni þar sem það sé hann sjálfur sem auglýsi en ekki flokkurinn. Stefán Jón segist hafa ákveðið að nota merkið því án þess hafi auglýsingin litið út eins og "einkasprikl". Mörður hnýtir í þessi vinnubrögð Stefáns í pistli sínum og segir hann eiga að vita betur með hliðsjón af fjölmiðlafræðimenntu hans og starfa í útvarpi.

Í lok pistilsins vitnar Mörður svo í eftirfarandi línur í Passíusálmunum sem hann segir rétt að láta fylgja með til varnaðar: „Launsmjaðran öll og hræsnin hál / hindrar Guðs dýrð, en villir sál, / straffast með ströngum dómi." Ekki verður hjá því komist að velta fyrir sér hvort Mörður sé þarna að vara Stefán Jón við hræsni. Fréttastofan hefur hins vegar ekki náð í Mörð í dag, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×