Innlent

5.000 til 6.000 manns leitar aðstoðar fyrir jólin

Það er ekki sjálfgefið að allir geti haldið gleðileg jól. Á milli fimm og sex þúsund manns leita á ári hverju aðstoðar til að geta haft hátíðarmat á borðum um jólin. Frestur til að sækja um jólaaðstoð hjá Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarfi kirkjunnar og Reykjavíkurdeild RKÍ rennur út á morgun.

Mæðrastyrksnefnd Reyjavíkur, Hjálparstarf kirkjunnar og Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands hafa í ár sameinast um að veita jólaaðstoð. Í henni fellst að einstaklingar fá hátíðarmat og fleira sem tengist jólahaldi og gerir þeim sem annars gætu ekki kleift að halda jólin hátíðleg. Í kringum 1500 til 2000 fjölskyldur leita á ári hverju eftir aðstoð um jólin eða hátt í sexþúsund einstaklingar og af þeim eru mikið af börnum.

Valgerður Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, segir að í kringum jólin komi fólk sem leiti venjulega ekki eftir aðstoð til þeirra annan tíma á árinu. Þetta eru þeir sem eru með lægstu tekjurnar svo sem ellilífeyrisþegar, einstæðar mæður á lægstu laununum og námsmenn á námslánum. Valgerður segir að það að svo margir einstaklingar leiti bara til þeirra um jólin sýni að endarnir ná ekki saman hjá mörgum í desember.

Fyrir marga eru það mjög erfið spor að sækja um aðstoð. Valgerður segir þetta síðasta skrefið sem fólk stígi og það geri það ekki fyrr en það er búið að reyna allt annað.

Hægt er að sækja um aðstoð til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstarfs kirkjunnar en þeir sem eru búsettir úti á landi geta leitað til presta í sinni sókn. Enn þá er tækifæri fyrir þá sem vilja leggja sitt af mörkum að gera það. Valgerður segir að margir hafi komið með myndarleg framlög. Það megi þó alltaf gera betur. Enn sé hægt að koma með framlög, bæði framlög í mat og vörum og fjárframlög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×