Innlent

Vilja sambærileg laun og í Reykjavík

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi hafa sent frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:

Í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 18:00, 4. janúar, var rætt um þann vanda sem skapast hefur á leikskólum í Kópavogi vegna manneklu og uppsagna starfsfólks. Þar var rætt við Þorvald Daníelsson og þar var því haldið fram að hvorki hefði heyrst hósti né stuna frá meirihluta né heldur minnihluta bæjarstjórnar.

Vegna þessara ummæla skal eftirfarandi tekið fram:

Í allt haust hafa einhverjir leikskólar í Kópavogi þurft að skerða verulega starfsemi sína vegna skorts á starfsfólki. Fleiri leikskólar standa nú frammi fyrir svipuðum vanda. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, sem skipa minnihluta í bæjarstjórn, hafa hvað eftir annað tekið þetta mál upp í bæjarstjórn Kópavogs frá því í ágúst og lagt fram tillögur og hugmyndir til lausnar. Að auki hafa þeir ítrekað lagt til að teknar verði upp viðræður við starfsfólk leikskólanna en bæjarfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa fellt allar tillögur þeirra. Þessar hugmyndir hafa þeir kynnt í fjölmiðlum. Meirihlutinn hefur sýnt þessu alvarlega ástandi ótrúlegt fálæti með aðgerðaleysi og afneitun á raunveruleikanum. Á meðan eru börnin send heim, á meðan missa foreldrar úr vinnu, á meðan geta leikskólarnir ekki veitt þjónustu sem vænst er af þeim.

Samfylkingin í Kópavogi vill að strax verði rætt við starfsfólk leikskólanna í Kópavogi og þeim tryggð sambærileg kjör og á leikskólum Reykjavíkur. Hækka þarf lægstu launin auk þess sem það þarf að leiðrétta launakjör leikskólakennara.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu, þrátt fyrir algera andstöðu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna í bæjarstjórn, fylgja þessum málum eftir af sömu festu og hingað til. "






Fleiri fréttir

Sjá meira


×