Innlent

Vill endurskoða hömlur á fjárfestingum

Halldór Ásgrímsson á Viðskiptaþingi.
Halldór Ásgrímsson á Viðskiptaþingi. MYND/GVA

Forsætisráðherra segir að endurskoða verði takmarkanir við fjárfestingum útlendinga hér á landi, meðal annars í sjávarútvegi. Framkvæmdastjóri LÍÚ segir þetta ekki nýja hugmynd hjá forsætisráðherra en að margt sé brýnna til að bæta stöðu sjávarútvegsins.

All nokkrar takmarkanir hafa verið á fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi um áratugaskeið. Þeir mega nú eiga allt að 49,9 prósenta hlut í útgerð en þá að því gefnu að eignaraðildin sé í gegnum annað íslenskt félag í þeirra eigu. Þetta kann hins vegar að breytast á næstunni ef orð forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í dag ganga eftir.

"Ég tel líka tímabært að endurskoða fyrri ákvarðanir sem takmarka fjárfestingu erlendra aðila í tilteknum atvinnugreinum, til dæmis í sjávarútvegi," sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. "Hér áður fyrr voru góð og gild rök fyrir slíkum takmörkunum en við verðum að horfast í augu við það alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem við búum nú við þar sem fjármagn, fólk og fjárfestingar flæða mikið til óhindrað yfir landamæri. Ég tel að slíkar takmarkanir geti dregið úr möguleikum okkar til að laða erlent fjármagn inn í íslenskt efnahagslíf."

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir ekkert nýtt við að forsætisráðherra vekji máls á að breyta reglum um fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. Hingað til hafi þó ekkert orðið úr breytingum. Friðrik segir margt mun meira aðkallandi fyrir útgerðina en að draga úr takmörkunum við fjárfestingum, svo sem að bæta rekstraraðstæður sem séu mjög háar vegna hins háa gengis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×