Innlent

Rúm fyrir álver og stækkun

Halldór Ásgrímsson.
Halldór Ásgrímsson.

Forsætisráðherra gaf lítið fyrir hvatningar stjórnarandstæðinga um hægja á uppbyggingu álvera á Alþingi í dag. Hann sagði álver á Húsavík og stækkun í Straumsvík rúmast innan marka Kyoto bókunarinnar en efast um að orka fáist fyrir álver á Reykjanesi.

Ánægjan með staðarval Alcoa fyrir hugsanlega álversbyggingu var ekki jafn útbreidd á Alþingi í dag og hún var á Húsavík í gær. Ögmundur Jónasson fór hörðum orðum um stóriðjustefnu stjórnvalda. Hann gagnrýndi eftirlátssemi við erlend álfyrirtæki og sagði grafið undan öðru atvinnulífi með uppbyggingu álvera auk þess sem blikur væru á lofti í efnahagsmálum.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra deildi ekki áhyggjum þingmannsins. Hann sagði gott að hafa í huga að ef yrði af framkvæmdum á Húsavík og í Straumsvík þýddi það 2.000 til 2.500 ný störf, og fimm til sex prósentum meiri hagvöxt en ella, það væru varla slæm tíðindi fyrir íslenskt efnahagslíf.

Forsætisráðherra sagði jafnframt að álver á Húsavík og stækkun í Straumsvík rúmuðust hvoru tveggja innan Kyoto bókunarinnar. Hann lýsti hins vegar efasemdum um að orka fengist fyrir álver á Reykanesi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, sagði að af þeim stöðum sem hefðu komið til greina í vali Alcoa væri valið á Húsavík í sjálfu sér skynsamlegt. Hún sagði þó aðalatriðið að nú ætti að gera hlé á byggingu nýrra álvera og stækkun þeirra sem eru fyrir þar til farið hefði fram ítarleg könnun á kostum þeirra og göllum. Síðan ætti að velja þann kost sem væri bestur fyrir Íslendinga.

Pétur Bjarnson, þingmaður Frjálslynda flokksins, var ekki í miklum vafa um hvers vegna Húsvíkingar fögnuðu. Hann sagði ástæðuna þá að atvinnulíf á landsbyggðinni hefði grotnað niður í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og spurði hvort lausnin ætti að vera að byggja álver út um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×