Skoðun

Ekki okra á örygginu

Andrés Ingi Jónsson skrifar
:Á alþjóðlega getnaðarvarnadeginum sem haldinn var fyrr í vikunni bárust Íslendingum slæm tíðindi. Hrun hefur orðið í sölu smokka síðastliðið ár samhliða því að verð þeirra hefur tvöfaldast. Sömu sögu er að segja af öðrum getnaðarvörnum. Þetta er heilbrigðisvandamál og félagslegt mein sem verður að bregðast við. Þetta er vandamál sem snertir ungt fólk sérstaklega mikið. Þó að nú sé kreppa mega stjórnvöld ekki skorast undan því að tryggja aðgengi að ódýrum og öruggum getnaðarvörnum.

Árlega smitast þúsundir af kynsjúkdómum hér á landi. Smokkurinn er eina vörnin gegn flestum þessara sjúkdóma. Reikniformúlan er einföld. Ódýrir smokkar eru frekar notaðir en dýrir. Ódýrir smokkar verja fólk fyrir sjúkdómum. Dýrari smokkar þýða að fleiri veikjast.

Viljum við að pyngjan ráði því hvort fólk sé heilbrigt?

Getnaðarvarnir gera fólki kleift að stjórna barneignum sínum, og hafa þannig verið mikilvægur þáttur í aukinni aðkomu kvenna að öllum sviðum þjóðfélagsins undanfarna áratugi - hvort sem er á vinnumarkaði, í menntakerfinu eða innan stjórnmálanna. Skert aðgengi að getnaðarvörnum hefur því í för með sér félagslegt óréttlæti, þar sem efnahagur fer að stýra því um of hversu mikinn þátt konur geta tekið í samfélaginu. Nóg er óréttlætið fyrir, þar sem ábyrgðinni á getnaðarvörnum er oftast að fullu velt yfir á konur.

Óttinn við svínaflensuna varð til þess að bóluefni fyrir 380 milljónir króna var pantað. Bóluefni sem alls óvíst er að virki. Smokkurinn er hins vegar eina vörnin gegn klamydíu, sárasótt, lekanda og fleiri stórhættulegum sjúkdómum. Hvers vegna stökkva heilbrigðisyfirvöld ekki upp til handa og fóta til að sporna við þeim, líkt og þau gera vegna svínaflensunnar?

Stjórnvöld verða að bregðast við þessu ekki seinna en strax.

Höfundur situr í stjórn Ungra vinstri grænna.






Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×