Skoðun

Lögreglan er traustsins verð

Björn Bjarnason skrifar
Um nokkurt árabil hélt Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins, uppi gagnrýni, of oft órökstuddri, á störf mín sem dómsmálaráðherra. Ég lét af því embætti 1. febrúar 2009, en Jón Kaldal heldur áfram að saka mig um vandræði í rekstri lögreglunnar, eins og lesa mátti í leiðara Fréttablaðsins 22. júlí.

Áður en ég lét af störfum hafði ég lagt drög að því, að veittar yrðu 150 m. kr. aukalega úr ríkissjóði til lögreglumála, einkum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vildi ég, að komið yrði til móts við útgjöld vegna mikils álags við öryggisgæslu sl. haust og fram undir lok janúar. Eftir stjórnarskipti var málið úr mínum höndum.

Á tímabilinu 2004-2008 hækkuðu útgjöld löggæslu úr 5,4 milljörðum króna á árinu 2004 í rúmlega 7,7 milljarða króna á árinu 2008. Hækkunin, 43%, á tímabilinu er rétt ríflega hækkun launavísitölu á sama tíma. Að kenna þessa þróun við „áralangt fjársvelti" eins og Jón Kaldal gerir í leiðara sínum, stenst ekki.

Sé leitað að snöggum bletti á framvindu lögreglumála í minni tíð sem dómsmálaráðherra, mætti spyrja: Var nóg að gert til að breyta innri starfsskipan lögreglu? Eru hlutföll til dæmis rétt milli undirmanna og yfirmanna?

Reifaðar voru hugmyndir um að fela einkaaðila að annast bílaflota lögreglunnar og tryggja endurnýjun hans auk annars tækjabúnaðar. Hefur verið horfið frá þeim?

Jón Kaldal telur þróun löggæslumála „sérstakt rannsóknarefni". Mikil gögn og tölfræði liggur fyrir um þessa þróun á undanförnum árum. Jón ætti að kynna sér þau, áður en hann fellir dóma sína.

Ég er stoltur af þróun lögreglumála undanfarin ár. Góður árangur lögreglumanna við úrlausn flókinna og viðkvæmra mála er til marks um mikinn metnað og áræði. Ég hvet til þess, að áfram verði unnið að því að efla löggæslu í landinu og búa lögreglumönnum sem best starfsskilyrði.

Höfundur er fyrrverandi dómsmálaráðherra.








Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×