Fótbolti

Nú er það endanlega ljóst: Sneijder fer ekki frá Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder.
Wesley Sneijder. Mynd/Nordic Photos/Getty
Massimo Moratti, forseti ítalska liðsins Internazionale, hefur komið fram og endanlega lokað á þann möguleika að félagið muni selja Hollendinginn Wesley Sneijder til Manchester United.

Wesley Sneijder hefur verið orðaður við Manchester United í allt sumar en Moratti segir að Hollendingurinn sé ekki til sölu. Sneijder sagði þó sjálfur frá því að óformlegar viðræður væru í gangi á milli Inter og United.

„Það hafa aldrei verið í gangi neinar viðræður um Wes. Sneijder var ósnertanlegur áður en við seldum Eto'o og nú þegar Eto'o er á förum er þa'ð öruggt að Sneijder er ekki að fara neitt," sagði Massimo Moratti við Gazzetta dello Sport. Moratti segir ennfremur að Inter ætli sér að styrkja liðið.

„Það er rétt að við höfum verið að fylgjast með þeim [Carlos] Tevez, [Ezequiel] Lavezzi og [Diego] Forlán. Það verður erfitt að ná samkomulagi um Tevez en við erum að reyna að fá hina tvo. Við sjáum til hvað gerist," sagði Moratti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×