Erlent

Heiðruðu minningu litla drengsins sem lést

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Móðir Abdullah, Shaima Swileh, fékk loksins að faðma son sinn fáeinum dögum áður en hann lést.
Móðir Abdullah, Shaima Swileh, fékk loksins að faðma son sinn fáeinum dögum áður en hann lést. Vísir/AP
Syrgjendur í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum heiðruðu í dag minningu tveggja ára jemensks drengs, Abdullah Hassan, sem lést í gær á sjúkrahúsi í Oakland. Mál drengsins rataði í fjölmiðla vegna langrar og strangrar baráttu móður hans við bandarísk stjórnvöld um inngöngu í landið.

Faðir Abdullah, Ali Hassan, og móðir hans, Shaima Swileh, giftu sig í Jemen árið 2016 en fluttust þaðan til Egyptalands. Ali er bandarískur ríkisborgari en Shaima er það ekki. Þegar ljóst var að Abdullah þyrfti að komast undir læknishendur í Bandaríkjunum vegna ólæknandi erfðasjúkdóms freistaði Shaima þess að sækja um vegabréfsáritun. Það gekk hins vegar ekki sökum ferðabanns Trumps Bandaríkjaforseta sem meinar ríkisborgurum frá Jemen og fleiri múslimalöndum að ferðast til Bandaríkjanna.

Hjónin sættust að endingu á að Ali færi með Abdullah til Kaliforníu þar sem sá síðarnefndi var lagður inn á sjúkrahús. Ástand hans versnaði stöðugt og fljótlega var útséð um að honum væri ekki hugað líf. Foreldrar hans voru orðnir vonlitlir um að Shaima kæmist til sonar síns í tæka tíð – og það hafðist ekki fyrr en samtök um tengsl Bandaríkjanna og íslam kærðu ákvörðun yfirvalda um að meina Shaimu inngöngu í landið. Hún komst loks til Bandaríkjanna rétt fyrir jól og missti því ekki af síðustu augnablikum í lífi sonar síns, sem hafði verið haldið á lífi með öndunarvél.

Frá jarðarför Abdullah í Kaliforníu í dag.AP/Daisy Nguyen
Fjöldi manns var samankominn við jarðarför Abdullah í dag. AP-fréttastofan greinir frá því að imaminn Muhammad Younus hafi stýrt bænahaldi áður en Abdullah var lagður til hinstu hvílu í nærliggjandi kirkjugarði.

Ferðabann Trumps hefur verið harðlega gagnrýnt frá því að það var fyrst kynnt til sögunnar í janúar árið 2017. Bannið meinar fólki frá Jemen, Íran, Líbíu, Sómalíu, Sýrlandi, Norður-Kóreu og Venesúela að ferðast til Bandaríkjanna. Afar fáir hafa hingað til fengið undanþágur frá banninu líkt og Shaima.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×