Innlent

Sam­komu­lag um upp­byggingu á sam­göngu­inn­viðum kynnt í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum klukkan 16:15 í dag.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum klukkan 16:15 í dag. vísir/vilhelm
Samkomulag ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára verður undirritað síðar í dag.

Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum klukkan 16:15 í dag, þar sem samkomulagið verður kynnt. Hægt verður að fylgjast með á Vísi hvað segir í samkomulaginu um leið og það verður kynnt síðdegis í dag.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að viðstaddir verði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og bæjarstjórar sveitarfélaganna sex, það er Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.

Háar fjárhæðir til uppbyggingar

Fundur fór fram í samgönguráðuneytinu í gær þar sem þingmenn höfuðborgarsvæðisins og nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd var kynnt efni samkomulagsins. Formaður nefndarinnar Bergþór Ólason gagnrýndi þá að þeim hafi verið meinað að sjá samkomulagið sjálft.

Áður hefur verið talað um að framkvæmdakostnaður verði milli 120 og 150 milljarðar króna sem verður fjármagnað af ríki, sveitarfélögum og með einhvers konar formi af gjaldtöku. Hafa verið nefndar stórar framkvæmdir líkt og að hluti Sæbrautar og Miklubrautar fari í stokk og uppbyggingu Borgarlínu allt frá Hafnarfirði í suðri til Mosfellsbæjar í norðri.


Tengdar fréttir

Fengu ekki að sjá samkomulagið sjálft

"Þetta er mjög undarlegt svo vægt sé til orða tekið,” segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Samkomulag um stórátak í samgöngumálum í bígerð

Unnið er að samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um stórátak í samgöngumálum þar sem framkvæmdir, sem alla jafna myndu taka áratugi, verða framkvæmdar á næstu tíu til fimmtán árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×