Meðal stærstu mála sem koma til þingsins eru samgönguáætlun, auk frumvarpa um veggjöld og einkaframkvæmdir í vegakerfinu, frumvarp um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum auk margra stórra landbúnaðarmála.
Formenn fastanefnda nefna þó fleiri mál eins og þjóðarsjóð, lækkun bankaskatts og neyslurými fyrir notendur fíkniefna. Þótt Allsherjar- og menntamálanefnd eigi eftir að fá kynningu frá ráðherrum er óhætt að fullyrða að styrkir til einkarekinna fjölmiðla verði ofarlega á baugi í nefndinni en menntamálaráðherra hefur lagt áherslu á að hið nýja styrkjakerfi komist til framkvæmda nú um áramót. Styrr hefur staðið um málið, ekki síst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Utanríkismálanefnd hefur einnig nokkra sérstöðu og fjallar gjarnan um alþjóðamál þegar þau koma upp. „Reynslan kennir okkur að ólíklegustu mál geta undið upp á sig og aukaatriði jafnvel orðið að aðalatriðum,“ segir Sigríður Á. Andersen, nýr formaður utanríkismálanefndar. Nefndin tekur við öllum EES-málum óháð því á hvaða málefnasviði þau eru en Sigríður hyggst setja kraft í endurskoðun á verklagi við innleiðingu þeirra bæði formlega og efnislega í nefndinni og í viðeigandi málefnanefndum.
Mikið annríki verður í efnahags- og viðskiptanefnd þetta haustið og á formaður nefndarinnar, Óli Björn Kárason, von á um það bil 50 málum frá ríkisstjórninni, auk þingmannamála. „Nefndarmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af verkefnaskorti í vetur,“ segir Óli Björn.
Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, býst við miklum skoðanaskiptum um annars vegar samgöngumál og hins vegar um fyrirhugaðan lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélagi en í atvinnuveganefnd má einkum búast við skiptum skoðunum um landbúnaðarmálin.