Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu taldi sér ógnað þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Úkraínuforseta að hún ætti eftir að „lenda í ýmsu“ í sumar. Eftirrit af framburði sendiherrans og fyrrverandi embættismanns utanríkisþjónustunnar fyrir þingnefndum sem rannsaka möguleg embættisbrot Trump hafa nú verið gerð opinber.
Rannsókn þriggja nefnda fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á því hvort að Trump hafi framið brot í embætti þegar hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitíska andstæðinga hans hefur fram að þessu farið fram fyrir luktum dyrum. Nefndirnar birtu í fyrsta skipti í gær eftirrit af framburði Marie Yovanovitch, sem Trump rak sem sendiherra í Kænugarði í maí, og Michael McKinley, fyrrverandi ráðgjafa Mike Pompeo, utanríkisráðherra, sem sagði af sér vegna ósættis við hvernig farið var með Yovanovitch.
Í framburðinum lýsti Yovanovitch ófrægingarherferð sem Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Trump forseta, og samverkamenn hans stóðu fyrir til að ryðja henni úr vegi. Giuliani, í samstarfi við úkraínskan saksóknara, hafi um margra vikna skeið grafið undan henni við Trump forseta sem lét á endanum kalla hana heim frá Kænugarði.
Í frægu símtali Trump og Volodímírs Zelenskíj, forseta Úkraínu, í júlí sagði Bandaríkjaforseti að Yovanovitch væri „slæmar fréttir“ og að hún ætti eftir að „lenda í ýmsu“. Yovanovitch bar vitni um að hún hefði haft miklar áhyggjur þegar hún las þau ummæli Trump og hún hefði þær enn. Játaði hún því að henni hafi fundist sér ógnað, að því er segir í frétt Washington Post.
Trump hélt því engu að síður fram við fréttamenn í gær að hann þekkti Yovanovitch „eiginlega ekki“ en að hún væri örugglega sómakona.
Giuliani og úkraínskur saksóknari vildu ryðja henni úr vegi
Yovanovitch var fengin til að framlengja dvöl sína sem sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu fyrr á þessu ári. Í maí var hún hins vegar kölluð heim fyrirvaralaust. Henni var skipað að taka fyrstu flugvél heim til Bandaríkjanna en við heimkomuna var henni tjáð að hún hefði ekkert gert rangt. Trump forseti hefði misst traust til hennar og staða hennar væri því ekki lengur sætt í embætti.
Fyrir þingnefndunum bar hún vitni um að hún hafi fyrst orðið þess áskynja að eitthvað væri á seyði síðla árs í fyrra þegar úkraínskir embættismenn gáfu henni óljósar viðvaranir um að Giuliani og Júrí Lútsenkó, þáverandi ríkissaksóknari Úkraínu, ættu í ráðabruggi, meðal annars um að gera henni eitthvað.
Á þeim tíma hafði bandaríska sendiráðið í Úkraínu verið afar gagnrýnið á störf Lútsenkó sem það taldi ekki standa sig í að uppræta spillingu og hjálpa til við að endurheimta um 40 milljarða dollara sem spilltir embættismenn voru taldir hafa dregið að sér í tíð Viktors Janúkóvitsj, fyrrverandi forseta.
Vegna þessa sagði Yovanovitch telja að Lútsenkó, í samstarfi við Giuliani, hafi viljað koma á hana höggi. Samkurl tvímenninganna taldi sendiherrann ganga gegn stefnu Bandaríkjastjórnar um að uppræta spillingu í Úkraínu og þeir hafi greinilega vilja fara í kringum formlegar samskiptaleiðir stjórnvalda.
Í framhaldinu hafi þeir hafið ófrægingarherferð gegn henni. Hún hafi verið sökuð um að grafa undan stefnu Trump forseta og að láta Lútsenkó fá lista yfir spillta embættismenn sem hann mætti ekki sækja til saka. Yovanovitch hafnaði þeim ásökunum algerlega. Lútsenkó hefur sjálfur dregið í landi með það síðarnefnda.
Var ráðlagt að mæra Trump á samfélagsmiðli
Síðar, þegar sendiráðið lagðist gegn því að Viktor Sjokín, annar úkraínskur saksóknari, fengi vegabréfsáritun til Bandaríkjanna vegna tengsla hans við spillingu segir Yovanovitch að Giuliani hafi klagað hana beint til Hvíta hússins. Giuliani hafi sagt Trump að sendiherrann í Kænugarði hefði stöðvað för Úkraínumanns sem gæti séð honum fyrir „upplýsingum um spillingu í sendiráðinu, þar á meðal mína spillingu“, sagði Yovanovitch þingmönnum.
Kvartanir hennar til utanríkisráðuneytisins báru engan árangur. Yovanovitch sagði að Mike Pompeo, utanríkisráðherra, eða einhver ráðgjafa hans hafi meðal annars hringt í Sean Hannity, þáttastjórnanda á Fox-sjónvarpsstöðinni og einarðan stuðningsmann Trump, til að komast að því hvað væri í gangi varðandi undirróður gegn sendiherranum og biðja þá um að hætta honum ef þeir hefðu ekki sannanir.
Til þess að bæta stöðu sína gagnvart Trump forseta og stöðva árásirnar var Yovanovitch ráðlagt að tísta lofi um forsetann.
„Þú verður, þú veist, að tísta því út að þú styðjir forsetann og að [fullyrðingar um óhollustu] séu lygar,“ ráðlagði Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu.
Það taldi Yovanovitch ekki samræmast embætti hennar sem sendiherra.
Eftir að Yovanovitch var kölluð heim fól Trump Sondland og Kurt Volker, þáverandi sendifulltrúa Bandaríkjanna vegna átakanna í Austur-Úkraínu, að vinna með Giuliani að samskiptum við úkraínsk stjórnvöld.
Áður en það gerðist segir Yovanovitch að Arsen Avakov, innanríkisráðherra Úkraínu, hafi varað hana við því hvað Giuliani og félagar væru að gera á bak við tjöldin. Avakov hafi óttast að Úkraína yrði að peði í innanríkisstjórnmálum Bandaríkjanna. Hann hafi sagt að Giuliani og samverkamenn hans væru að reyna að finna skaðlegar upplýsingar um Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.
Avakov hafi jafnframt varað hana við því að Giuliani og félagar vildu losna við hana og að hún skyldi gæta sín. Tveimur mánuðum síðar var Yovanovitch látin taka poka sinn.
Vitnisburður ráðgjafa stangast á við yfirlýsingar utanríkisráðherrans
McKinley, fyrrverandi ráðgjafi Pompeo utanríkisráðherra, sagði þingnefndunum að hann hefði hvatt til þess að ráðuneytið gæfi út yfirlýsingu til stuðnings Yovanovitch í vor. Hann hafi meðal annars nefnt þá hugmynd beint við Pompeo í september eftir að Hvíta húsið birti minnisblað um símtal Trump og Zelenskíj þar sem Bandaríkjaforseti fór niðrandi orðum um sendiherrann. Pompeo hafi ekki brugðist við.
Sá framburður stangast á við það sem Pompeo hefur sagt opinberlega um að McKinley hafi aldrei nefnt það við sig að lýsa yfir stuðningi við Yovanovitch.
McKinley sagði af sér í haust, ósáttur við hvernig utanríkisráðuneytið kom fram við embættismenn sem lentu á milli steins og sleggju í þrýstingsherferð bandamanna Trump í Úkraínu.
Samverkamaður Giuliani fellst á að vinna með rannsókninni
Giuliani er persónulegur lögmaður Trump en vinnur launalaust fyrir forsetann. Vitni í rannsókn þingsins hafa greint frá því að hann hafi rekið nokkurs konar skuggautanríkisstefnu sem miðaði að því að tryggja Trump persónulegan pólitískan greiða frá úkraínskum stjórnvöldum.
Þrátt fyrir störf sín fyrir Bandaríkjaforseta hefur Giuliani haldið áfram störfum fyrir aðra skjólstæðinga, þar á meðal erlenda. Hann hefur í gegnum tíðina haft umsvif í Úkraínu. Tveir samverkamenn hans í þrýstingsherferðinni á úkraínsk stjórnvöld voru handteknir í síðasta mánuði, grunaðir um ólögleg kosningaframlög.
Annar þeirra, Lev Parnas, er nú sagður hafa fallist á að bera vitni fyrir þingnefndunum og afhenda þeim gögn í tengslum við rannsóknina á Trump forseta. Reuters-fréttastofan segir það vera sinnaskipti því Parnas hafi hafnað samvinnu við nefndirnar í október. Parnas er sagður hafa hjálpað Giuliani að koma á fundum með úkraínskum embættismönnum.
Parnas lýsti sig saklausan af ákæru um að hafa átt í samsæri um að nota skúffufyrirtæki til að gefa pólitískri aðgerðanefnd sem styður Trump forseta fé og að safna fé ólöglega fyrir fyrrverandi þingmanna repúblikana til að liðka fyrir því að Trump ræki Yovanovitch sendiherra.
Á sama tíma og Giuliani vann að því að fá úkraínsk stjórnvöld til að rannsaka Biden og stoðlausa samsæriskenningu um Demókrataflokkinn í Úkraínu reyndu Parnas og tveir samverkamenn hans að komast til áhrifa í úkraínsku gasfyrirtæki.