Kennari við Fjölbrautarskóla Suðurlands, sem sætir nú sóttkví vegna kórónuveirunnar, vinnur að heiman á meðan á sóttkvínni stendur. Skólameistari segir alla almennt sátta við fyrirkomulagið. Nokkur óvissa hefur verið um réttindi fólks sem er í sóttkví en ekki veikt. ASÍ fagnar því að starfsmönnum í slíkri stöðu sé gefinn kostur á að vinna að heiman ef hægt er.
Kennarinn kom til landsins á laugardag með flugi Icelandair frá Veróna á Ítalíu. Hann býr í Reykjavík og fór beint í sóttkví við heimkomu, líkt og öllum sem koma frá landinu er gert að gera samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis. Kennarinn hefur því ekki komið inn í skólann og mun vera í sóttkvínni út næstu viku.
Kennir um hundrað nemendum
„Kennarinn er nettengdur og sendir nemendum verkefni á netinu, og þau skila og hann fer svo yfir það heima hjá sér. Hann smellir bara áfanganum í fjarnám í þessari stöðu,“ segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautarskóla Suðurlands í samtali við Vísi.
Kennarinn er í fullri stöðu við skólann og kennir því nokkrum hópum, alls rúmlega hundrað nemendum.
„Við reiknum með að hann komi bara sprækur þegar þessi tími er liðinn.“
Sjá einnig: Atvinnulíf gæti lamast tímabundið komi til heimsfaraldurs
Olga segir að skólinn hafi áður gripið til sambærilegs fyrirkomulags við önnur tilefni. Þessi háttur hefur verið hafður á þegar kennarar forfallast og einnig í hinum mikla lægðagangi sem gengið hefur yfir landið síðustu misserin.
„Við höfum líka verið að glíma við mikla ófærð og veður hér eins og annars staðar á landinu núna á vorönn og þá hafa kennarar verið beðnir sérstaklega og hafa gert það að senda nemendum verkefni rafrænt og þeir hafa þá unnið heima í stað þess að koma í skólann.“
Nemendur umburðarlyndir upp til hópa
Olga segir skólastjórnendur fylgjast vel með gangi mála. Þá verði reynt að hafa sama háttinn á ef fleira starfsfólk þarf að fara í sóttkví.
„Við myndum reyna það á meðan hægt er en þetta verður flóknara ef þetta verður einhver hópur sem veikist. Þetta er auðvitað fordæmalaust ástand og við munum spila úr því eins og það kemur fyrir á hverjum tíma, og tökum ákvarðanir á þeim tíma og við þær aðstæður sem við getum,“ segir Olga.
„Við erum líka að hugsa um nemendurna, þau mega ekki við því að missa út margar vikur úr námi. Ef mikið fellur út af þá misferst önnin vegna þess að tíminn er þannig skipulagður að við þurfum á öllum vikunum að halda sem eru í boði á hverjum tíma.“
Nemendur séu þó almennt sáttir við fjarkennslufyrirkomulagið.
„Já, já, nemendur eru umburðarlynt fólk upp til hópa og þau aðlaga sig að aðstæðum eins og þau geta.“
ASÍ fagnar því ef starfsfólki er gefinn kostur á að sinna vinnu sinni í sóttkví. Slíkt fyrirkomulag er þó ekki vænlegt á öllum vinnustöðum og margir sem verða óvinnufærir, séu þeir látnir sitja heima.
Samtökum atvinnulífsins og ASÍ hefur ekki borið saman um hvernig launagreiðslum í sóttkví skuli háttað. ASÍ telur að starfsmenn sem sæta sóttkví eigi rétt á launum en SA segir svo ekki vera.
„Ef fólk er í sóttkví og er ekki veikt þá er um að ræða lögmæt forföll en það á ekki rétt á launagreiðslum,“ sagði Davíð Þorláksson forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Fulltrúar stjórnvalda, SA og ASÍ munu í dag kynna samkomulag um hvernig þessum launagreiðslum verði háttað.