Nokkrar tilkynningar bárust lögreglunni á Suðurnesjum um áramótin vegna óæskilegrar meðferðar á flugeldum.
Þar á meðal var tilkynnt um unglinga í Sandgerði sem voru að kasta flugeldum inn í anddyri fjölbýlishúss. Þegar lögregla kom á staðinn voru þeir á bak og burt, er fram kemur í tilkynningu frá lögregluembættinu.
Í Njarðvík eru unglingar sagðir hafa verið staðnir að því að sprengja flugelda inni í nýbyggingu. Þeir ætluðu að forða sér þegar þeir urðu varir við lögreglu án árangurs. Lögreglumenn ræddu við þá um atvikið og höfðu jafnframt tal af forráðamönnum þeirra.
Þá var lögreglu tilkynnt um pilta sem voru að kasta flugeldum í íþróttahús. Drengirnir náðu að komast undan á hlaupum.
Eldur kom einnig upp í bílskúr í Keflavík en grunur leikur á að hann hafi kviknað út frá flugeldi sem lenti á skúrnum, samkvæmt tilkynningu lögreglu.
Auk þessa kviknaði í pítsukassa sem skilinn hafði verið eftir á eldavél í íbúðarhúsnæði í Keflavík. Einhverjar skemmdir urðu af völdum reyks.
