Töluverð jarðskjálftavirkni hefur verið við Grindavík síðustu daga og er kvikuinnskot talin líklegasta skýringin á jarðhræringunum. Jarðeðlisfræðingur líkir innskotinu og áhrifum af því við það að troða bók í miðjan bókastafla.
Í heildina hefur land risið yfir fjóra sentimetra frá 20. janúar síðastliðinn. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 kílómetra dýpi rétt vestan við Þorbjörn.
Jarðeðlisfræðingurinn Magnús Tumi Guðmundsson ræddi um stöðu mála á svæðinu í Bítinu í morgun, þar sem hann greip til nokkuð frumlegrar skýringar til þess að útskýra áhrif kvikuinnskotsins.
„Þessi kvika, hún er að mynda gang eða treður sér, ef við segjum að þetta sé bókastafli, þá sé verið að troða þunnri bók inn í staflann, þetta eru kannski 20 bækur og það sé verið að troða þessu inn á milli tíundu og elleftu bókar,“ sagði Magnús Tumi.
Ummerkin um þetta komi svo fram með landrisi og jarðskjálftum.
„Við á yfirborðinu sjáum að staflinn lyftist aðeins. Það er svona nokkurn veginn það sem er að gerast núna. Svo þegar þessi bók er komin í staflann þá mun hún ekki fara neitt,“ sagði Magnús Tumi.
Öflug skjálftahrina varð á föstudaginn nærri Grindavík, sá stærsti 4,3 að stærð. Upptök þeirra voru fjórum til fimm kílómetrum norðnorðaustur af Grindavík. Skjálftarnir fundust vel á Reykjanesinu.
„Skjálftarnir eru afleiðing því sem er að gerast. Það er landrisið sem er aðalatriðið og veldur spennu þannig að það hrökkva sprungur og misgengi sem eru aðallega austan og norðaustan við Grindavík sem er ekki nákvæmlega sami staður og er að rísa. Þar eru brot í jarðskorpunni sem eru orðin spenntari og þess vegna verða skjálftarnir þar,“ sagði Magnús Tumi.
Þá sagði hann að ef horft væri til næstu 100 til 200 ára væru verulegar líkur á eldgosi á svæðinu en mikið þurfi að gerast til þess að þær jarðhræringar sem nú eru í gangi leiði til eldgoss.
„Enn sem komið er þetta ekkert komið á þann stað. Það þarf eitthvað töluvert meira að gerast áður en menn fara að hallast að því að það sé líklegast að þetta endi með gos.“