Innlent

Minni skjálftavirkni við Þorbjörn og lítið landris

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Grindavík en fjallið Þorbjörn er í nágrenni bæjarins.
Frá Grindavík en fjallið Þorbjörn er í nágrenni bæjarins. vísir/vilhelm

„Þetta er nú allt að róast. Ég myndi nú ekki segja að þetta væri búið, það eru alveg að koma inn skjálftar þarna og við sjáum alveg á Grindavíkurstöðinni að það er enn þá svolítil virkni en hún er mjög lítil þannig að við náum ekki að staðsetja þá,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi spurður út í stöðuna við fjallið Þorbjörn á Reykjanesi.

Enn er í gildi óvissustig vegna mögulegrar kvikusöfnunar undir svæðinu við Þorbjörn. Frá 21. janúar hafa yfir 1600 skjálftar verið staðsettir á svæðinu og hafa þeir flestir orðið í suðvestur/norðaustur stefnu um tvo kílómetra norðaustur af Grindavík, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Þá hefur verið líka verið landris á svæðinu, mest um fimm sentimetrar, en Benedikt segir að landrisið sé orðið frekar flatt, það er að punktarnir sem mæla það færast ekki upp á við heldur eru alltaf í sömu stöðu meira og minna.

„Og við sjáum það líka í þenslunni eða landrisinu að það er eiginlega orðið svolítið flatt. En við erum aftur á móti að sjá landbreytingar enn þá. Við erum að sjá aflögun á svæðinu þannig að þetta er svolítið öðruvísi merki,“ segir Benedikt.

Þannig sé lárétt aflögun í gangi sem geti verið þensla en hún sé svo lítil að ekkert landris sjáist.

„En það getur líka verið jarðskorpan að laga sig að því sem var í gangi síðustu tvær, þrjár vikur og ég myndi halda að það væri bæði, það lítur þannig út, að það sé enn þá eitthvað í gangi en bara minna,“ segir Benedikt.

Þrátt fyrir að rólegra sé yfir svæðinu nú en verið hefur síðustu vikur fylgjast vísindamenn áfram með allan sólarhringinn enda er alls ekki hægt að segja að þetta sé búið að sögn Benedikts þótt þetta sé á rólegri nótunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×