Enski boltinn

Ole Gunnar Solskjær með sögulegt tak á Pep Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær kann þá lista að stýra Manchester United til sigurs á móti Manchester City. Hér er hann með Pep Guardiola.
Ole Gunnar Solskjær kann þá lista að stýra Manchester United til sigurs á móti Manchester City. Hér er hann með Pep Guardiola. Getty/Matt McNulty
Ole Gunnar Solskjær stýrði Manchester United til sigurs á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær og sá til þess að Pep Guardiola hefur aldrei áður upplifað annað eins tímabil á stjóraferli sínum.

Manchester United vann ekki aðeins báða deildarleiki sína á móti lærisveinum Pep Guardiola í vetur heldur einnig einn leik að auki í enska deildabikarnum.

United vann 2-0 sigur á Old Trafford í gær og hafði áður unnið 2-1 á Ethiad í deesember. Manchester United vann síðan 1-0 sigur á Ethiad í seinni undanúrslitaleik enska deildabikarsins í lok janúar en City fór áfram á 3-1 sigri í fyrri leiknum.

Solskjær varð því með þessum sigri á Old Trafford í gær fyrsti knattspyrnustjórinn til að vinna lið Pep Guardiola þrisvar sinnum á sama tímabilinu.





Það var fleira sem var sögulegt við þennan sigur Manchester United í gær. Manchester City var nefnilega að tapa sínum sjöunda deildarleik á leiktíðinni en svo oft hefur lið Guardiola aldrei tapað á einni leiktíð.

Pep Guardiola hafði gert Manchester City að Englandsmeisturum á síðustu tveimur tímabilum og liðið tapaði samanlagt sex sinnum á þeim. City menn eru því búnir að tapa fleiri deildarleikjum 2019-20 en þeir gerðu samanlagt í 72 leikjum 2017-18 og 2018-19.

Manchester City tapaði síðan sex sinnum á fyrsta tímabili Pep Guardiola með liðið 2016-17.





Aðeins þrír knattspyrnustjórar hafa náð því að vinna báða leiki sína á móti Pep Guardiola á sömu leiktíð en auk Ole Gunnars Solskjær eru það Antonio Conte með Chelsea 2016-17 og svo Nuno Espírito Santo með Wolves 2019-20.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×