Erlent

Önnur minnsta út­breiðsla haf­íssins á norður­skautinu í sögunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Hafísinn á norðurskautinu nær yfirleitt lágmarki eftir sumarylinn í lok september eða byrjun október áður en sólin lækkar á lofti og kólnar í veðri.
Hafísinn á norðurskautinu nær yfirleitt lágmarki eftir sumarylinn í lok september eða byrjun október áður en sólin lækkar á lofti og kólnar í veðri. AP/David Goldman

Útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu þegar hún var minnst í lok sumars var sú önnur minnsta frá því að mælingar hófust. Þau fjórtán ár sem útbreiðslan hefur mælst minnst hafa nú öll verið undanfarin fjórtán ár.

Hafísinn á norðurskautinu náði minnst yfir 3,74 milljónir ferkílómetra þriðjudaginn 15. september. Samkvæmt bráðabirgðatölum Snjó- og ísgagnastofnunar Bandaríkjanna (NSIDC) var það lægsta útbreiðsla hafíssins í sumar, að sögn loftslagsvefsíðunnar Carbon Brief.

Sumarlágmarkið í ár er það annað minnsta frá því að gervihnattamælingar hófust undir lok 8. áratugs síðustu aldar. NSIDC segir að það sé í samræmi við langtímahnignun hafíssins. Aðeins munaði um 350.000 ferkílómetrum á útbreiðslunni í ár annars vegar og metlágmarkinu í lok sumars 2012 hins vegar.

Útbreiðslan í lok sumars nú er 2,51 milljón ferkílómetrum minni en meðalútbreiðslan á þessum árstíma frá 1981 til 2010. Það er sambærilegt við flatarmál Grænland og Finnlands samanlagt.

Útbreiðsla hafíssins 15. september undanfarin ár. Aðeins metárið 2012 var hún minni en í ár.NSIDC

NSIDC setur þann fyrirvara við bráðabirgðatölurnar að breytt vindátt eða bráðnun seint á tímabilinu gæti dregið enn úr útbreiðslu hafíssins líkt og var raunin árin 2005 og 2010. Vanalega næst sumarlágmark íssins seint í september eða snemma í október.

Þegar útbreiðslan nú um miðjan september er borin saman við metlágmarkið 2012 er nú meiri hafís í Beaufort-hafi en nokkuð minni í Laptev- og Austur-Grænlandshafi.

Hop hafíssins á norðurskautinu er ein af afleiðingum hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Frá 1979 til 2020 hefur útbreiðslan dregist saman um 13,4% á áratug borið saman við meðaltal áranna 1981 til 2010.

Kort af útbreiðslu hafíssins 17. september 2012 (litað hvítt) og 15. september 2020 (litað blátt).NSIDC



Fleiri fréttir

Sjá meira


×