Skoðun

Losun frá jarð­varma­stöðvum Lands­virkjunar fer minnkandi ár frá ári

Jóna Bjarnadóttir skrifar

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir að losun vegna jarðvarmavirkjana á Íslandi minnki að minnsta kosti um 47% árið 2030, miðað við árið 2005. Við hjá Landsvirkjun tökum þetta markmið alvarlega, en við viljum gera enn betur og höfum einsett okkur að árið 2025 verði losun frá jarðvarmavinnslu okkar á Norðausturlandi 63% minni en hún var árið 2005.

Stærsti hluti losunar Landsvirkjunar er vegna jarðvarmavinnslu fyrirtækisins á Norðausturlandi. Á svæðinu eru þrjár aflstöðvar; Kröflustöð, Þeistareykjastöð og Gufustöðin í Bjarnarflagi. Stöðvarnar nýta ólík jarðhitakerfi sem hafa ólíka náttúrulega eiginleika, m.a. í styrk koldíoxíðs. Þannig er losun mest frá Kröflustöð, jafnvel þó að Þeistareykjastöð vinni meiri orku.

Okkur hefur gengið vel að draga úr losun til þessa og nú þegar hefur orðið 39% samdráttur í losun, á sama tíma og raforkuvinnsla okkar með jarðvarma hefur rúmlega tvöfaldast með tilkomu Þeistareykjavirkjunar.

Lækkunin skýrist af hluta af því að losun frá Kröflustöð fer minnkandi ár frá ári, en einnig með öflugri vinnslustýringu. Þekking okkar á þeim jarðhitakerfum sem við nýtum og samþætting jarðvarma og vatnsorkunýtingar gerir okkur kleift að stýra að hluta til losun frá starfsemi okkar. Til dæmis höfum við dregið úr vinnslu jarðvarma í góðum vatnsárum, en með því drögum við úr losun þar sem raforkuvinnsla með vatnsafli hjá okkur losar minna en jarðvarminn.

Unnið er að því að draga enn frekar úr losun frá jarðvamavinnslunni með því að fanga koldíoxíð úr útblæstri virkjananna og annað hvort dæla því aftur ofan í jörðina eða nýta það til verðmætasköpunar. Við höldum því ótrauð áfram að þróa nýjar leiðir til þess að draga úr losun frá jarðvarmavirkjunum, sem og allir okkar starfsemi.

Þessar aðgerðir eru hluti af því markmiði okkar að verða kolefnishlutlaus árið 2025 og telja beint inn í markmið stjórnvalda um að draga úr losun frá jarðvarmavirkjunum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×