Innlent

Hefur kært styttu­stuldinn til lög­reglu

Atli Ísleifsson skrifar
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, fór á fund lögreglunnar á Vesturlandi á miðvikudaginn fyrir páska og kærði styttustuldinn.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, fór á fund lögreglunnar á Vesturlandi á miðvikudaginn fyrir páska og kærði styttustuldinn. SNÆFELLSBÆR/VÍSIR/ARNAR

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, hefur kært stuldinn á bronsstyttunni af Guðríði Þorbjarnardóttur á Laugarbrekku á Snæfellsnesi til lögreglu.

Þetta staðfestir Kristinn í samtali við Vísi. Hann mætti til lögreglunnar á Vesturlandi á miðvikudaginn fyrir páska og kærði þá stuldinn.

Hann segist vita til þess að listakonurnar tvær – sem sem hafi nýtt styttuna sem hluta af listaverki fyrir utan Nýlistasafnið á Granda í Reykjavík – hafi verið komnar með símanúmer hans og tölvupóst í byrjun síðustu viku en að þar sem hann hafi ekkert heyrt í þeim hafi hann ákveðið að kæra stuldinn. „Ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri fullreynt,“ segir Kristinn.

Jón Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, staðfestir í samtali við fréttastofu að málið sé á borði lögreglu og sé til rannsóknar. Hann segist gera ráð fyrir að málið verði unnið í samstarfi við lögreglu á höfuðborgarsvæðinu þar sem vitað sé af styttunni í Reykjavík.

Styttan á Laugarbrekku er af Guðríði Þorbjarnardóttur og syni hennar Snorra Þorfinnssyni.REGÍNA HRÖNN/GUÐMUNDUR MÁR ÍVARSSON

Sögðu styttuna „rasíska“

Greint var frá því fyrir um tveimur vikum að styttunni af Guðríði hafi verið stolið af stöpli sínum. 

Nokkrum dögum síðar birtist styttan inni í listaverki þeirra Bryndísar Björnsdóttur og Steinunnar Gunnlaugsdóttur – geimflaug með styttuna af Guðríði. Þær Bryndís og Steinunn nefndu verkið „Farangursheimild: Fyrsta hvíta móðirin í geimnum“. Sögðu þær styttuna af Guðríði vera „rasíska“. „Henni verður skotið upp og vonandi breytist hún þar í geimrusl sem flýgur í kringum jörðina,“ sagði Steinunn í samtali við fréttastofu.

Guðríður var fædd á Laugarbrekku og var á sínum tíma talin vera víðförlasta kona heims sem uppi var í kringum árið 1000.

Styttan er afsteypa af styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði og syni hennar, Snorra Þorfinnssyni. Ber hún nafnið „Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku“ og var upphaflega gerð fyrir Heimssýninguna í New York árið 1939. 

Afsteypunni var komið fyrir á steinstöpli við Laugarbrekku árið 2000 og var það Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, sem afhjúpaði styttuna.


Tengdar fréttir

Settu stolnu styttuna í geim­flaug og segja hana rasískt verk

Bronsstyttan eftir Ásmund Sveinsson af Guðríði Þorbjarnardóttur og syni sem var stolið af stöpli á Laugarbrekku birtist skyndilega fyrir utan Nýlistasafnið um helgina. Hún hefur nú verið færð í nýjan búning og segja ábyrgðarmenn um rasíska styttu að ræða sem beri helst að skjóta á brott út í geim.

Brons­­styttunni af Guð­ríði Þor­bjarnar­dóttur á Laugar­brekku stolið

Óprúttnir aðilar hafa stolið bronsstyttu af Guðríði Þorbjarnardóttur sem stóð á stöpli á Laugarbrekku, rétt vestur af Hellnum á sunnanverðu Snæfellsnesi. Bæjarstjóri Snæfellsbæjar segist í sjokki vegna málsins en hann á einnig sæti í áhugamannahópi sem vinnur að því að halda minningu Guðríðar á lofti.

Stolna styttan komin í leitirnar: „Það þarf að fara yfir málið“

Bronsstyttan af Guðríði Þorbjarnardóttur sem stolið var af stöpli á Laugarbrekku, rétt vestur af Hellnum á sunnanverðu Snæfellsnesi í vikunni, er nú fundin. Sú birtist skyndilega fyrir utan Nýlistasafnið í dag, eiganda styttunnar og safnstjóra að óvörum.

„Við eigum að bera virðingu fyrir list­rænu frelsi fólks“

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, og Sunna Ástþórsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, ræddu í morgun saman um listaverkið fyrir utan Nýlistasafnið þar sem í er að finna bronsstyttu af Guðríði Þorbjarnardóttur sem stolið var af Laugarbrekku á Snæfellsnesi í síðustu viku. Kristinn segist ekki skilja málflutning listakvennanna um að styttan sé „rasísk“ og segir hann að fólk eigi að bera virðingu fyrir listrænu frelsi annarra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×