Skoðun

Kjalarnesið á ís

Guðni Ársæll Indriðason skrifar

Kjalnesingar kusu að sameinast Reykjavík fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi, til að tryggja betri þjónustu og áframhaldandi uppbyggingu sem talið var að myndi ekki verða undir merkjum Kjalarneshrepps.

Fyrir sameininguna var samþykkt stækkun Grundarhverfis. Um 50 lóðir voru í boði. Ákall hefur verið um það á Kjalarnesinu síðustu 18 ár að bjóða lóðir til að viðhalda eðlilegri þróun um íbúafjölda. Þrátt fyrir að um 20 lóðir séu til þá fæst engin vegna mögulegra fornminja eða vegna ófrágengins skipulags. Enginn vilji hefur verið til að bæta þar úr. Á þessum tíma hefur nemendum Klébergsskóla fækkað úr tæpum 200 í rúma 100.

Þessi þróun veldur minni möguleikum á fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi, lakari félagslegri stöðu barna, minni þjónustu á Kjalarnesi og flótta barnafjölskyldna. Ætla má af samkomulagi því sem gert var á milli Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar fyrir sameininguna að áframhald yrði á uppbyggingu og um leið yrði þjónusta aukin í samræmi við fjölgun íbúa.

Í dag eru almenningssamgöngur á Kjalarnesi bornar uppi af landsbyggðarstrætó. Á upphafsárum landsbyggðarstrætó áttu Kjalnesingar von á að enginn strætó kæmi ef það væri ófært til Akureyrar. Eitthvað hafa ráðamenn séð að sér og dugar að það sé ófært undir Hafnarfjalli til að strætó sjáist ekki. Áreiðanlegri er þjónustan nú ekki.

Sjálfbærni hverfisins er ekki áhugamál núverandi valdhafa borgarinnar. Gjarnan hafa Kjalnesingar talað um að Kjalarnesið gleymist alltaf. Ég tel að málið sé alvarlegra en það og Kjalarnesinu vísvitandi haldið til hliðar, nánast á ís. Það passar ekki inn í núverandi mynd uppbyggingar í Reykjavík um þéttingu og borgarlínu.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að úthverfin fái líka að þróast, eflast og styðja við þá byggð sem er þar nú þegar. Á Kjalarnesi eru miklir möguleikar fyrir eðlilega uppbyggingu sem getur gert Kjalarnesið sjálfbærara gagnvart þjónustu og atvinnu. Til þess þarf að skipuleggja íbúalóðir og atvinnulóðir við Grundarhverfi.

X-M fyrir meira Kjalarnes.

Höfundur er í 5. sæti Miðflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×