Verkfallið hefur staðið yfir frá 4. júlí, í þrettán daga, þegar um 900 norskir, danskir og sænskir flugmenn SAS lögðu niður störf eftir að kjaraviðræður við stjórnendur félagsins sigldu í strand. Stærsta óánægjuefni flugmanna félagsins tengist aðgerðum SAS eftir heimsfaraldur.
Í faraldrinum var um 40 prósent starfsmanna sagt upp og eru starfsmenn óánægðir með að félagið noti dótturfélag sitt til að ráða inn nýja flugmenn til starfa á lægri launum. Þá er einnig óánægja með að fyrirtækið hafi ekki endurráðið starfsfólk sem það sagði upp í heimsfaraldrinum.
Margra milljóna tap og þúsundir finna fyrir aflýsingum
Nú þegar verkfallið hefur staðið yfir í þrettán daga hefur þurft að aflýsa meira en 2.500 flugum félagsins og meira 270.000 farþegar hafa fundið fyrir afleiðingum þess.
Í gær þurfti að aflýsa meira en 130 flugferðum og í dag hefur þurft að aflýsa 154 flugferðum samkvæmt Avinor. Samningsaðilar hafa ekkert viljað tjá sig en segja að viðræðurnar haldi áfram í dag.
Útlitið er ekki gott fyrir flugfélagið sem er verulega skuldsett og þurfti að sækja um gjaldþrotaskipti eftir að verkfallið hófst.