Lovísa Falsdóttir skrifaði um málið á Twitter og birti mynd af peysunum. „How dare you H&M“, skrifar Lovísa við myndina.
how dare you H&M pic.twitter.com/hwEKUAQeak
— Lovísa (@LovisaFals) November 2, 2022
Fréttastofa leitaði viðbragða hjá Handprjónasambandi Íslands. Hildur Sveinsdóttir stjórnarformaður er allt annað en sátt. „Mér finnst þetta auðvitað ömurlegt og illa farið með íslensku lopapeysuna. Að fjöldaframleiða peysur úr lélegu efni sem líta út eins og íslenskar lopapeysur er vanvirðing við íslensku lopapeysuna og hefðina sem við höfum skapað með henni“, segir Hildur.
„Þetta er hluti af neyslumenningu nútímans, fast fashion en við erum auðvitað á hinum endanum, slow fashion, þar sem hver peysa er prjónuð í höndum á Íslandi úr íslenskum lopa."
Hildur bendir þó á að munstrin séu ekki upprunavottuð. Hún segir að þar sem H&M auglýsi peysurnar ekki sem „íslensk lopapeysa“ eða nefna hana ekki þannig þá geti fyrirtækið í raun gert hvað sem það vill, því miður.“
Árið 2020 samþykkti Matvælastofnun að heitið Íslensk lopapeysa – Icelandic Lopapeysa yrði skráð sem verndað afurðarheiti með vísan til uppruna.
Á heimasíðu Matvælastofnunar má sjá þau skilyrði sem peysa þarf að uppfylla til að hljóta slíka skráningu. Þau eru eftirfarandi:
- Ullin sem notuð er í handprjónaðar íslenskar lopapeysur skal vera klippt af íslensku sauðfé
- Í peysuna skal notuð nýull (ull sem ekki er endurunnin)
- Peysan skal vera prjónuð úr lopa, s.s. plötulopa, Léttlopa, Álafosslopa o.s.frv.
- Peysan skal hafa hringprjónað berustykki með munsturformum og/eða munsturbekkjum frá herða- eða axlalínu að hálsmáli
- Peysan skal vera handprjónuð á Íslandi
- Peysan skal vera prjónuð í hring án sauma (samsetningar)
- Peysan skal vera opin eða heil
Fréttin hefur verið uppfærð