Innlent

Fundu ör­magna göngu­mann í nótt

Árni Sæberg skrifar
Landheglisgæslan notaði TF-GNA í útkallið.
Landheglisgæslan notaði TF-GNA í útkallið. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunar var kölluð út á þriðja tímanum í nótt til leitar að örmagna göngumanni á Skarðsheiði, á háhryggnum milli Heiðarhorns og Skessuhorns.

Þetta segir í færslu á Facebooksíðu Landhelgisgæslunnar. Þar segir að útkallið hafi verið að beiðni lögreglunnar á Vesturlandi.

TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, hafi tekið á loft frá Reykjavíkurflugvelli þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í þrjú og þremur korterum síðar hafi verið búið að finna göngumanninn, heilan á húfi, og koma honum um borð í þyrluna.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgis, segir aðstæður hafi verið krefjandi fyrir þyrlusveitina sökum þoku en þegar rofaði til hafi tækifærið verið nýtt og maðurinn hífður um borð í þyrluna. Hífingin hafi gengið vel eins og sjá megi á meðfylgjandi myndbandi:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×