Edda var á föstudag framseld til Noregs en hún hafði verið í haldi lögreglu hér á landi í þrjá daga. Þar er stefnt á að hún svari til saka í máli tengdu forræðisdeilu hennar við barnsföður sinn. Nú er Edda í mánaðarlöngu gæsluvarðhaldi í Telemark-kvennafangelsinu þar sem hún bíður réttarhalda.
Ekki vitað hvenær réttarhöldin fara fram
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn tengda máli Eddu til dómsmálaráðherra. Hún telur mál Eddu vera fordæmalaust þar sem hún skilji ekki ákvörðun ríkissaksóknara um að afhenda hana, séu til fordæmi.
„Þetta mál er þannig vaxið að íslenskur ríkisborgari er afhentur úr landi ótímabundið vegna ótilgreindra réttarhalda sem er ekki komin dagsetning á. Ég held það sé fullt tilefni til þess að við fáum að vita nákvæmlega hvernig framkvæmdin á þessu hefur verið. Hvaða skilyrði, ef einhver, hafa verið sett í gegnum tíðina, gagnvart slíkri afhendingu,“ segir Diljá Mist.
Rík eftirlitsskylda
Hún segir dómsmálaráðherra auðvitað ekki geta aðhafst í einstaka málum, hins vegar beri bæði ráðherra og þingmönnum skylda að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld fari að lögum.
„Að íslenskur ríkisborgari sé afhentur með svona miklum hraða til þess að mæta við réttarhöld, því þessi tiltekni ríkisborgari hefur ekki verið dæmdur fyrir brot í þessu máli sem er til meðferðar í Noregi. Þetta hlýtur að vera einsdæmi að íslenskur ríkisborgari sé afhentur svona út í óvissuna án nokkurra skilyrða eða kvaða frá íslenska ríkinu. Þannig ég held það sé fullt tilefni til að skoða hvort þetta sé venjan, hvort svona sé meðferðin á íslenskum ríkisborgurum alla jafna. Og ef ekki, hvað þá veldur því að þetta mál fær sérstaka meðferð í kerfinu,“ segir Diljá Mist.