Ármann sagði í kvöldfréttum á Stöð 2 í gær að skoða eigi að reisa eldgosavarnir í byggðum vestast í Hafnarfirði, það er að segja á Völlunum og við Hvaleyri. Sagði hann stóra skjálftann sem reið yfir í gær merki um að spennulosun á Reykjanesinu sé komin hressilega í gang. Fara eigi að skoða uppbyggingu eldgosavarna umsvifalaust.
„Það er alltof mikil byggð þarna, bæði mikilvægt iðnaðarsvæði og svo stór íbúðabyggð. Menn verða að skoða það líka,“ sagði Ármann.
Ummerki um að Krýsvíku, Trölladyngja og Eldvörpin séu að taka við sér
„Við erum komin inn í eldgosatímabil og það er gott að vera viðbúin því að það geti gosið í raun og veru hvar sem er á Reykjanesskaganum, þó það gerist kannski ekki einn, tveir og þrír,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Skaginn er kominn í gang og við erum að sjá ummerki um það að hinar ýmsu gosreinar á Skaganum, eins og Krýsuvík, Trölladyngja og Eldvörpin og fleira, virðast vera farin að taka við sér. Það þýðir að við verðum að búa okkur undir atburði eins og gliðnun og eldgos. Ef Krýsuvíkurkerfið fer í fullan gang þá getum við fengið gos fyrir ofan Hafnarfjörð, við Helgafell og þar. Þá er mjög skynsamlegt að huga að því að þetta geti gerst.“
Inntur eftir því hvort eldgos á skaganum yrðu alltaf hraungos segir Þorvaldur söguna bera þess merki að slík gos séu algengust á skaganum. Gosin geti þó framleitt stærri hraunbreiður en hafi komið út úr eldgosum síðustu ára.
Kerfisbundið hættumat á breiðum grundvelli
Hann tekur undir með Ármanni kollega sínum að huga þurfi að verndun byggða í næsta nágrenni við þekkt eldfjöll.
„Ég held að það væri mjög skynsamlegt að fara í kerfisbundið hættumat og gera það á breiðum grundvelli,“ segir Þorvaldur og bætir við að til þess þyrfti alla sérfræðinga landsins á breiðu sviði
„Við erum búin að gera ákveðið hættumat, hvar líklegustu staðirnir eru að geti gosið. Þetta hefur legið fyrir í nokkur ár. Svo hefur verið skoðað hver eru líklegustu rennslissvæði hrauna og hvaða áhrif það geti haft. Það þarf að gera á stærri skala fyrir Reykjanesið. Í flestum tilfellum er það ekki að fara að vera lífshættulegt heldur mun hafa áhrif á innviði.“
Þannig myndi til dæmis gos í Bláfjöllum hafa áhrif á skíðasvæðið, en ekki síst þjóðveg 1.
„Það er um að gera að fara að skoða hvað við getum gert í fyrirbyggjandi aðgerðum. Það er best að vera tilbúin og vita hvernig á að bregðast við og hvað er best viðbragðið. Það er skynsemi í því, því það er góð fjárfesting. Þá getum við dregið úr áhrifum þessara umbrota á okkar daglega líf eins mikið og kostur er.“
Hlusta má á viðtalið við Þorvald í heild sinni í spilaranum hér að neðan.