Skoðun

Orma­gryfja plast­barka­málsins

Guðlaugur Bragason skrifar

Eftir að hafa sett mig inn í plastbarkamálið svokallaða í kjölfar heimildaþáttanna Bad Surgeon á streymisveitunni Netflix, þá er ég með nokkrar vangaveltur sem mig langar að greina frá.

Fyrir það fyrsta hef ég velt fyrir mér hver ábyrgð einstakra lækna sé þegar þeir vísa á meðferðir sem allt þeirra kerfi styður við. Rannsóknir virðast lofa góðu og virt stofnun lofar meðferðina og tekur hana að sér líkt og Karólínska sjúkrahúsið gerði í plastbarkamálinu. Er hægt að sakast út í framlínulækna sem horfa í augu sjúklings og mæla með slíkri meðferð þegar vanrækslan virðist koma frá þriðja aðila en ekki þeim sjálfum?

Getur verið að fleiri meðferðir séu í gangi sem byggja á álíka veikum eða fölskum grunni og við sáum í plastbarkamálinu? Hvað með Covid 19 bóluefnin sem mærð voru af flestum læknum hér á landi (og erlendis) sem spöruðu ekki yfirlýsingar um ágæti þeirra?

Líkt og rannsóknarblaðamaðurinn Bosse Lindquist greindi frá á sínum tíma, þá hafði Paolo Macchiarini sett plastbarka í fimm sjúklinga áður en búið var að birta niðurstöður úr dýratilraunum. Þarna er vanrækslan á því stigi að maður trúir varla að Macchiarini hafi komist óáreittur að skurðarborðinu, og hvað þá að hann hafi náð að starfa undir fölsku flaggi í þrjú ár á einum virtasta spítala heims, Karólínska sjúkrahúsinu. Til að bæta gráu ofan á svart, þá fór nokkrum samstarfsmönnum Macchiarini að gruna að ekki væri allt með felldu og í stað þess að taka grunsemdir þeirra til greina, þá snérist stjórn Karólínska gegn þeim og setti í staðinn allt púðrið í að vernda Macchiarini.

Hvers vegna ætti ég að bera traust til annarra heilbrigðisstofnana og að stjórnendur þeirra muni ekki bregðast eins við uppljóstrurum sem ákveða að afhjúpa vanrækslu innan sinna herbúða? Hvers vegna ætti ég að bera von í brjósti um að heiðarlegt fólk hafi einfaldlega kjark til að gerast uppljóstrarar þegar viðbrögð yfirvaldsins geta verið á þennan veg?

Ég nefndi aðeins Covid 19 bóluefnin hér að ofan, en ég tel plastbarkamálið varpa ljósi á ákveðin vandamál í þeirri bóluefnaherferð sem átti sér stað í faraldrinum. Hér verður engin tilraun gerð til að sannfæra nokkurn mann um að efnin hafi verið hættuleg eða ekki skilað ætluðum árangri. Mig langar hins vegar að líkja þessum málum saman út frá nokkrum atriðum sem ég tel nauðsynlegt að fá svör við.

Flestir hafa eflaust tekið eftir fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga sem beinst hefur að hjartaskurðlækninum Tómasi Guðbjartssyni, en hann er sá Íslendingur sem helst flæktist í lygavef Paolo Macchiarini. Í kjölfar þeirrar umfjöllunar skrifaði Magnús Karl Magnússon, læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands grein til varnar Tómasi, en hún birtist hér á Vísi undir nafninu Plastbarkamálið – um skort á vönduðum fréttaflutningi um málið. Það er einnig hægt að finna greinina á Facebook-vegg Magnúsar sem er öllum opinn. Ég tel því óþarft að endurtaka aðild Tómasar að plastbarkamálinu en langaði að rýna í lykilþættina í vörn Magnúsar og þá með tilliti til Covid 19 bólusetninganna.

Eftirfarandi tilvitnun er úr lykilþætti 3 úr grein Magnúsar:

„Tilvísandi læknir vísar þá sjúklingi til meðferðar og sú stofnun sem tekur við sjúklingunum ber þá ábyrgð á þeirri meðferð sem þar er veitt. Það er fráleitt að tilvísandi læknir þurfi eða hafi tök á að kanna áreiðanleika allra þeirra vísinda, birtra og óbirtra, sem að baki slíkri meðferð liggur á þekktustu stofnunum heimsins”

Það er ekki alveg ljóst hvað Magnús meinar með síðari hluta þessarar setningar. Vissulega er ógerlegt fyrir lækni að setja sig inn í allar grunnrannsóknir að baki læknismeðferð og hvað þá grunnrannsóknir að þeim grunnrannsóknum. Ég get ekki ímyndað mér að gagnrýnin á Tómas sé þetta óvægin, en Magnús kýs að orða þetta svona. Eins og ég skil vandamálið þá hefði ekki þurft að kynna sér hvert einasta smáatriði heldur aðeins að vinna smá rannsóknarvinnu til að vanræksla og/eða svik Macchiarini hefðu byrjað að afhjúpast, enda voru nauðsynleg leyfi eða grunnvísindi að baki meðferðinni ekki til staðar. Í Facebook-færslu Magnúsar spurði ég hann út í þetta atriði, en hann svaraði á þann veg að „þetta hefði allt verið fyrirbyggt ef eftirlitskerfi vísindasiðanefndar hefði virkað eins og það á að virka.” Ég er vissulega sammála þeim punkti að meginábyrgðin virðist liggja hjá vísindasiðanefnd Karólínska. Ég á samt erfitt með að skilja Magnús öðruvísi en að læknar geti þ.a.l. mælt með og lofað ágæti meðferða við sjúklinga allt eftir handriti einhvers þriðja aðila sem ekki er viðstaddur í herberginu? Hvað með lyf sem lyfjaframleiðendur lofa og vísa í eigin rannsóknir máli sínu til stuðnings? Dugar það handrit til að læknar þurfi ekkert að setja sig meira inn í málið, svo framarlega sem lyfin hafa fengið leyfi? (Jafnvel neyðarleyfi?)

Mér finnst þetta mikilvægt atriði, og þá sérstaklega í ljósi þeirra afdráttalausu yfirlýsinga sem Tómas Guðbjartsson (og reyndar Magnús Karl einnig) var með á Covid-tímum. Þar fullyrti hann ítrekað um ágæti þeirra bóluefna sem landsmönnum var boðið að þiggja og gerði lítið úr gagnrýnisröddum.

Hef ég einhverja ástæðu til að treysta því að Tómas hafi haft hugmynd um hvað hann var að tala, þ.e. annað en að hann hafi verið að endurtaka fullyrðingar einhvers þriðja aðila líkt og hann gerði í plastbarkamálinu? Eða myndi Magnús svara þessu þannig að þegar um er að ræða meðferðir innan okkar heimahaga, þá setji læknar sig að sjálfsögðu inn í hvert einasta smáatriði? Nú segir Magnús í viðtali við Bítið 9. janúar síðastliðinn að „í vísindum og í rauninni í öllum störfum skiptir máli að allir séu gagnrýnir, og kannski sérstaklega í vísindum en þar sem maður þekkir til og andrúmsloftið er eins og það á að vera þá eiga allir, háir sem lágir, ungir sem eldri að geta með fræðilegum rökum spurt spurninga, sem er grundvallarhluti að starfinu”. Mér finnst þetta áhugaverður punktur hjá Magnúsi í ljósi þess að efasemdarmenn á hápunkti Covid sprautanna fengu lítinn sem engan hljómgrunn hjá fræðasamfélaginu, og læknar líkt og Tómas gerðu lítið úr gagnrýnisröddum eins og ég nefni hér að ofan. Hvað með Magnús sjálfan á Covid tímum? Átti hann samtal við þá lækna sem höfðu efasemdir um ágæti þessara bóluefna fyrir yngstu kynslóðina? Hægt er að nefna aðsenda grein hjartalæknana Sigfúsar Örvars Gizurarsonar og Kristjáns Guðmundssonar sem birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst 2021 sem dæmi. Þar vara þeir við því að bólusetja börn gegn Covid 19. Í desember sama ár segir Magnús Karl í viðtali við Vísi að það sé sannarlega ekki slæmt að gera tilraunir á börnum, og talar eins og það séu engar efasemdir úr fræðisamfélaginu að flækjast fyrir honum?[2] Hvert er framlag Magnúsar til þessa andrúmslofts sem hann vísar í? Átti hann t.d. samtalið við þessa tvo hjartalækna sem voru honum svo augljóslega ósammála? Ef svo er, hvað kom út úr því samtali? Í viðtali Vísis hljómar Magnús eins og allt fræðisamfélagið hafi verið sammála sem var aldeilis ekki raunin.

Ég tek fram að þetta er ekki persónuleg gagnrýni á Magnús eða Tómas, heldur þau vinnubrögð sem mér heyrist á Magnúsi að séu stöðluð og eðlileg í læknasamfélaginu og hvar ég tel Magnús vera kominn í mótsögn við fyrri orð. Það má því skipta Magnúsi og Tómasi út fyrir aðra yfirlýsingaglaða lækna á Covid-tímum, að því gefnu að þeir hafi unnið eftir sama vinnuferli og ég gagnrýni hér.

Í lykilþætti 5 ræðir Magnús vísindagreinina sem var skrifuð um barkaþegann Andemarian og hvernig kom í ljós eftir á „að ekki voru til staðar nauðsynleg leyfi eða grunnvísindi sem eiga að liggja fyrir áður en slík meðferð fer fram.”

Magnús skrifar svo í beinu framhaldi:

„Íslenskir greinarhöfundar báru þar enga ábyrgð og voru blekktir líkt og margir nánir samstarfsmenn Macchiarini við Karólínska.”

Þarna fullyrðir Magnús að íslenskir greinahöfundar beri enga ábyrgð, en rökstyður það þó ekki frekar. Ég spurði Magnús sérstaklega út í þennan punkt á Facebook-vegg hans en fékk aftur svör þess efnis að ábyrgðin lægi hjá eftirlitskerfi vísindasiðanefndar. Ég skil það því sem svo að Magnúsi finnist ekkert athugavert við það að læknir setji nafn sitt á vísindagrein þó svo að viðkomandi hafi ekki kynnt sér grunnforsendur þeirrar rannsóknar. Má því gera ráð fyrir því að slík undirritun sé staðlað vinnuferli líkt og meðmæli og tilvísun í meðferð án rannsóknarvinnu.

Eftir skoðun á plastbarkamálinu og vörn Magnúsar þá get ég aðeins dregið tvær ályktanir. Annað hvort er Tómas sekur um vanrækslu og Magnús er í nauðvörn fyrir vin sinn, eða það vinnuferli sem læknar fara eftir þegar kemur að því að veita sjúklingum upplýsingar um meðferðir er meingallað. Miðað við allar stuðningsyfirlýsingar sem Tómas hefur fengið á samfélagsmiðlum síðustu daga hef ég enga ástæðu til að ætla annað en að hann starfi af heilindum. Vandamálið virðist því vera kerfið sjálft, en ef það er ekki skothellt gegn óheiðarlegum vinnubrögðum, þá geta heiðarlegir menn sem treysta í blindni orðið leiksoppar svikahrappa án þess að vita að því.

Hvað er þá til ráða til að koma í veg fyrir að heiðarlegir góðir læknar sem eru ómetanlegir fyrir samfélagið dragist inn í mál eins og plastbarkamálið? Fyrst Paolo Macchiarini gat starfað í þrjú ár hjá einni fremstu heilbrigðisstofnun heims á gjörsamlega fölskum forsendum, hvað mun taka mörg ár að upplýsa heiminn ef einhver vanræksla átti sér stað t.d. í grunnrannsóknum á Covid 19 bóluefnunum? Ef svo kemur í ljós, ætlar Tómas Guðbjartsson þá að koma með aðra afsökunarbeiðni eftir nokkur ár?

Þarf ekki einfaldlega að laga þessa vinnuferla lækna og að þeir hætti að treysta þriðja aðila í blindni? Ég skil að þetta er líklega mun yfirgripsmeira vandamál en svo að það sé hægt að laga nokkur atriði og að allt verði þannig fullkomið.

Ætli mér finnist þá ekki a.m.k. mikilvægt að læknar hafi þann fyrirvara á að þeir séu að tala fyrir hönd þriðja aðila þegar þeir eru að sinna sjúklingum, og upplýsi sjúklinga um það hvort þeir hafi kynnt sér málið ofan í kjölinn eður ei. Sjúklingur getur í kjölfarið tekið ákvörðun um að kynna sér málið sjálfur ef honum finnst læknirinn ekki hafa gert það á fullnægjandi máta. Sá eini sem getur metið þetta er sjúklingurinn, að því gefnu að hann sé upplýstur um stöðu og þekkingu læknis á tilvísandi meðferð hverju sinni. Ég geri mér grein fyrir því að fæstir sjúklingar eru að fara setja sig djúpt inn í rannsóknir á þeim meðferðum sem þeim er vísað í, en þetta væri þó mögulega ein leið til að draga úr ábyrgð tilvísandi læknis.

Ég veit t.d. um nokkra einstaklinga persónulega sem hefðu hugsað sig tvisvar um áður en þeir létu sprauta sig með bóluefninu frá Pfizer hefðu þeir vitað glæpasögu þess fyrirtækis. Sem dæmi var Pfizer sektað um 2,3 milljarða dollara árið 2009 fyrir glæpsamlegt athæfi á lyfjamarkaðnum, sem var þá stærsta sekt á lyfjafyrirtæki í sögu Bandaríkjanna. Fyrirtækið hefur svo einnig verið sektað um tugi milljóna dollara fyrir að múta læknum. Að sjá heiðarlega lækna endurtaka fullyrðingar frá slíku fyrirtæki án gagnrýni finnst mér ógnvekjandi þróun og vonandi eitthvað sem samfélag lækna getur lagað í sínu verklagi.

Er hægt að draga einhvern lærdóm af plastbarkamálinu? Hvaða lærdóm eru þeir sem hlut eiga að máli að draga, ef einhvern? Er niðurstaðan ekki sú, ef gera má ráð fyrir að rök Magnúsar Karls dugi læknastéttinni, að eftir sem áður verði læknar að treysta í blindni þeim stofnunum sem a.m.k. af nafninu til ættu að vera vandar að virðingu sinni og þ.a.l. að verkferlar viðkomandi stofanna trompi dómgreind læknanna sjálfra? Það sem mér finnst mest umhugsunarvert er hversu langt Paolo Macchiarini komst innan veggja Karólínska, og hvernig stjórn sjúkrahússins fór í herferð gegn þeim sem reyndu að upplýsa um glæpi hans. Mér finnst því mikilvægt að læknar og aðrir í ábyrgðarstöðum hætti að treysta í blindni og átti sig á því að mannleg mistök og jafnvel glæpsamlegur ásetningur geti fyrirfundist alls staðar.

Höfundur er heimspekingur.


Heimildir




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×