Skoðun

Öllu frelsi fylgir á­byrgð, líka tjáningar­frelsinu

Arnar Þór Jónsson skrifar

Í mörg ár hef ég ritað greinar í blöð og tímarit til varnar frelsinu, þ.m.t. tjáningarfrelsinu. Þar hef ég alltaf lagt ríka áherslu á að öllu frelsi fylgir ábyrgð. Þannig hef ég verið talsmaður þess að menn noti tjáningarfrelsið til að eiga málefnalegar rökræður, en ekki til að ráðast að persónum annarra með ómálefnalegum hætti. Ég er á móti því að tjáningarfrelsið sé notað til að grafa undan stoðum lýðræðisins, t.d. með því að skrumskæla aðra að ósekju.

Stuðningur við tjáningarfrelsið kemur ekki í veg fyrir að við veitum viðnám þeim sem fara yfir velsæmismörk í sinni tjáningu, ala á fordómum eða ganga fram af siðleysi, óbilgirni eða fyrirlitningu. Frelsi til að tjá hugsun sína er hluti af borgaralegum réttindum, en þann rétt má ekki slíta úr samhengi við borgaralegar skyldur. Sérfræðingar og fagstéttir, þ.m.t. blaðamenn, hafa sett sér siðareglur og bera sérlega ríkar siðferðilegar og samfélagslegar skyldur þegar kemur að ábyrgri tjáningu.

Í frjálsu og borgaralegu samfélagi svara menn sjálfir til ábyrgðar fyrir orð sín og gjörðir. Með því að ala á fjandskap og fordæmingu í garð annarra er höggvið á þau samfélagslegu bönd sem tengja fólk hvert við annað. Vilji menn búa í samfélagi sem einkennist af kurteisi og umburðarlyndi þá þurfum við að gæta mjög vandlega að því hvernig við tjáum hug okkar og skoðanir.

Tjáningarfrelsið lýtur almennum siðrænum takmörkunum um virðingu og náungakærleik. Hér sem annars staðar er Gullna reglan til leiðbeiningar: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra“. Yfirgangur og vanvirðing rúmast ekki innan þessa ramma. Frelsi til athafna skyldar okkur um leið til að virða helgi annarra. Lýðræðið krefst þess í raun og veru að við sýnum hvert öðru mannúð. Vonandi getum við sameinast um það að bæta íslenska umræðu, bæði í máli og myndum, og sett okkur það markmið að sýna hvert öðru hlýju, skilning og kærleika.

Höfundur er forsetaframbjóðandi.




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×