Innlent

Dags­ljósið hafi gleymst í þéttingu byggðar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ásta segir dagsbirtuna nauðsynlega fyrir líkamlega og andlega heilsu fólks.
Ásta segir dagsbirtuna nauðsynlega fyrir líkamlega og andlega heilsu fólks. Bylgjan

Ásta Logadóttir, verkfræðingur hjá Lotu og sérfræðingur í birtu og lýsingu í húsum, segir alls dagsbirtuna oft gleymast þegar verið er að hanna hús. Hún fagnar nýrri reglugerðarbreytingu á byggingarreglugerð og óskar þess að nýr ráðherra taki hana föstum tökum.

Ásta segir alls ekki alla hönnuði vera með dagsbirtuna í huga þegar það er verið að hanna og dagsljósið hafi í raun gleymst í þéttingu byggðar. Ásta fór yfir málið í Reykjavík síðdegis í dag.

„Það er svo sannarlega hægt að þétta byggð á góðan hátt. En við erum svolítið að gleyma okkur og regluverkið passar ekki upp á okkur nægilega vel.“

Ásta segir birtuna skipta miklu máli fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu fólks.

„Þú færð ekki nógu mikið af ljósi þegar við byrjum að byggja svona,“ segir Ásta um bygginguna sem byggð var í Álfabakka og skyggir á íbúðir Búseta við Árskóga. Hún segir að hægt sé að bregðast við með því að fara í raflýsingu en það sé plástur á opið sár.

Ásta Logadóttir segir að í nágrannalöndum okkar séu reglugerðir þar sem kveðið er á um einhverjar ákveðnar kröfur um dagsbirtu og dagsljós þegar byggt er. Það sama gildi ekki á Íslandi. Það standi þó til að breytast því í samráðsgátt sé núna tillaga að breytingu á byggingarreglugerð þar sem talað er um ljósvist og útsýni.

Samráði er lokið samkvæmt samráðsgáttinni og er gert ráð fyrir því að breytt reglugerð öðlist gildi 1. mars á næsta ári samkvæmt heimasíðu samráðsgáttarinnar.

Ásta segir með þessu nýjan kafla koma í reglugerðina þar sem kveðið er á um bæði ljósvist og útsýni. Það séu gerðar kröfur um dagslýsingu en líka tekið á ljósmengun og raflýsingu og mörgu öðru.

Vantar leiðbeiningar með reglugerðinni

Aðalbreytingin sé samt að það komi krafa um dagsljós í byggingarreglugerð.

„Þannig við munum ekki geta byggt svona rosalega þétt og rosalega hátt og framfylgt þessum kröfum sem standa þarna.“

Reglugerðarbreytingin var lögð fram af Svandísi Svavarsdóttur sem innviðaráðherra en Sigurður Ingi Jóhannsson gegnir því embætti þar til ný ríkisstjórn tekur við. Ásta segir algert lykilatriði að nýr ráðherra klári málið. Það séu ekki til neinar leiðbeiningar eins og stendur og það þurfi að bæta þeim við svo fólk viti hvernig það eigi að vinna samkvæmt þessum nýju reglum.

„Það er ekki neitt til og 1. mars er bara á morgun því tíminn líður svo hratt,“ segir Ásta og það sé áríðandi að nýr ráðherra geri þetta vel.

Ásta segist hafa mikla ástríðu fyrir þessum málefnum. Hún hafi fyrst fengið áhuga á þessu í sumarstarfi hjá Orkuveitunni og hafi verið fengin til að hanna götulýsingu. Hún hafi séð það þegar hún svo fór út að ganga hversu miklu máli það skipti hversu nálægt þeir voru og hvernig birtan væri.

Þegar hún hafi farið í framhaldsnám hafi hún skoðað þetta nánar. Svo um aldamót hafi farið að koma fram fræðigreinar um hvaða áhrif birta hefur á fólk heilsufarslega.

Orkuminni og þyngri á veturna á Íslandi

„Svo búum við bara á landi sem er svo mikið myrkur á veturna,“ segir Ásta og að hún þekki það af sjálfri sér á veturna að vera til dæmis orkuminni og þyngri í skapi.

„Þetta er mér mikið hjartans mál.“

Ásta segir að breytingin á reglugerðinni muni líklega hafa einhver áhrif á það hvernig hér er byggt. Hefði hún verið til komin þegar til dæmis Valshverfið var byggt upp væri líklega að lengra væri á milli bygginga. Dagsbirtan komist vel að í inngörðum þar en annað sé að segja um götumyndina.

„Ef við hefðum haft þessar reglur þá, þegar þetta hverfi var að koma upp, hefði líklega götumyndin verið mun breiðari þannig ljósið kæmist betur að íbúðum á neðstu hæð og íbúðum í hornum,“ segir hún og að íbúðir í hornum séu oft útsettari en aðrar fyrir lélegum birtuskilyrðum.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ástu í heild að ofan.


Tengdar fréttir

Vöruhúsið ekki hannað af arkitekt

„Arkitektar eru sérmenntaðir í að hanna út frá þörfum manneskjunnar á fagurfræðilegum grundvelli, en það er mikill misskilingur að halda að þeir einir komi að mótun borgarumhverfisins. Það gera einnig byggingarfræðingar, byggingatæknifræðingar, verkfræðingar, landslagsarkitektar og fleiri.“

Búseti sættir sig ekki við vöruhúsið

Húsnæðissamvinnufélagið Búseti sættir sig ekki við stærðarinnar vöruhús sem reist var fáum metrum frá fjölbýlishúsi í þeirra eigu. Framkvæmdastjórinn segir stjórnendur munu funda með lögmanni sínum á morgun.

Einka­fram­takinu sé ekki alltaf treystandi fyrir miklu svigrúmi í skipu­lagi

Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata segir augljóst að einkaframtakinu hafi ekki verið treystandi fyrir rúmum skipulagsheimildum í Breiðholti. Þess vegna séu reglur og kvaðir á skipulag mikilvægar. Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir reglur of strangar en tekur þó fram að mikilvægt sé að borgin hafi afskipti þegar það varði heildarhagsmuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×