Innlent

Barst til­kynning um olíustuld í Hafnar­firði

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Olíustuldurinn var framinn í Hafnarfirði.
Olíustuldurinn var framinn í Hafnarfirði. Vísir/vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um þjófnaði á olíu úr beltagröfu í Hafnarfirði. Málið er til rannsóknar en undanfarna daga hefur mikið borið á olíustuldri.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.

Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.

Fyrr í dag var rætt við Sigurð Má Hannesson, sóknarprest í Seljakirkju sem segir að bílar séu oft skildir eftir til lengri tíma fyrir utan kirkjuna og eru þeir gjarnan fullir af bensínbrúsum. Í vikunni var svo hundruðum lítra af olíu stolið úr flutningabílum Fraktlausna auk þess sem vörubílstjóri greip þjóf glóðvolgan í sömu erindagjörðum í Bústaðahverfi.

Lögreglan hafði þá í nægu öðru að snúast í dag en hún hafði tvisvar afskipti af einstaklingum sem reyndu annars vegar að ræna bjór af hótelbar og hins vegar vínflöskum af bar í Hlíðunum í Reykjavík. Ekki var um sömu einstaklinga að ræða. Í sama hverfi hafði lögregla afskipi af einstaklingum sem höfðu komið sér fyrir í yfirgefnu húsi.

Einnig þurfti að hafa afskipti af ágreiningi skyldra einstaklinga, bæði í Háaleitis- og Bústaðahverfi en einnig í Árbæ. Lögreglunni barst að auki tilkynning um heimilisofbeldi á Kjalarnesi í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×