Innlent

Húsvíkingur á Norður­pólnum segir sögu merkustu land­könnuða 20. aldar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Örlygur Hnefill er á Norðurpólnum ásamt afkomendum tveggja af merkustu landkönnuðum 20. aldar.
Örlygur Hnefill er á Norðurpólnum ásamt afkomendum tveggja af merkustu landkönnuðum 20. aldar. aðsend

Húsvíkingi hefur verið falið að segja heiminum söguna af því þegar tveir frægustu landkönnuðir 20. aldarinnar héldu í leiðangur á Norðurpólinn. Örlygur Hnefill Örlygsson er nú, ásamt afkomendum brautryðjendanna, í fimmtán daga leiðangri á pólnum þar sem hann fangar sögu þeirra í heimildarmynd. Fréttastofa fékk að kíkja í heimsókn hjá pólfaranum á Húsavík áður en hann fór í reisuna miklu.

Sir. Edmund Hillary, nýsjálenskur fjallgöngumaður og landkönnuður, náði fyrstur manna tindi Everest fjalls. Vart þarf að kynna til sögunnar Íslandsvininn mikla, hinn bandaríska Neil Armstrong sem varð fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið. Um þessi afrek þeirra vita flestir en það sem ekki margir vita er að brautryðjendurnir tveir lögðu upp í leiðangur á Norðurpólinn árið 1985 þar sem þeir lentu í miklum ævintýrum.

„Fjölskyldur þeirra hafa treyst okkur, með lítið safn norður á Húsavík til að segja þessa merkilegu sögu. Neil var frekar hlédrægur og lítið fyrir athyglina og þetta var bara „prívat“ ferð sem þeir fóru. Hann sagði fjölskyldu sinni og leiðangursstjóranum að þau mættu segja þessa sögu þegar hann væri fallinn frá og það kemur í hlut okkar að gera það, sem er gríðarlegur heiður,“ segir Örlygur.

Íslandsvinurinn Neil Armstrong

Örlygur hefur nú í næstum áratug grúskað í sögu mannanna tveggja og viðað að sér heimildum og frásögnum. Örlygur þurfti ekki að fara langt til að sækja sumar frásagnanna því Armstrong uni sér einkar vel í Þingeyjarsýslu.

„Það sem hann upplifði hér á Húsavík og í kring er að hann fékk bara að vera í friði. Hann kunni svo vel við þessa orku og eftir að hann verður þessi heimsfrægi maður við að fara til tunglsins þá fer hann að koma hingað aftur og fer í veiðiferðir hér og tengir virkilega við þessa staði.“

Neil Armstrong, Mike Dunn og Sir Edmund Hillary á Norðurpólnum árið 1985.Aðsend

Eftir fráfall Armstrongs árið 2012 hefur fjölskylda og afkomendur hans komið alls kyns merkilegum munum og minjagripum úr safni Armstrongs til Örlygs þar sem hann mun varðveita og sýna á Húsavík, þar sem Armstrong leið svo vel.

„Hérna er ég með veiðarfæri sem Neil Armstrong átti og skildi eftir hérna eftir eina af sínum mörgu ferðum hingað til þess að veiða i ánum okkar,“ sagði Örlygur og sýndi stoltur á svip.

„En það sem mér þykir einna vænst um, persónulega, er þetta hér,“ segir Örlygur og réttir fram öskju með tveimur áhafnarmerkjum úr Apollo 11 leiðangrinum til tunglsins. Sonur Armstrongs átti annað þeirra en áhugafólk um geimferðir veit líklega að hefð er fyrir því að áhafnarmerki er hannað fyrir hverja geimferð og fær hver geimfari þrjátíu slík merki sem hann getur ráðstafað af vild. Nú er merkið norður á Húsavík.

Þegar fréttamaður hélt að safnið gæti ekki orðið glæsilegra svipti Örlygur hulunni af krúnudjásninu sjálfu sem Örlygur heldur að sé verðmætari en húsið sitt.

„Þetta er peysan sem Neil Armstrong fór í á pólinn,“ sagði Örlygur.

Hún er merkt og allt?

„Já, þeir merktu þetta því það var mjög mikil upplifun fyrir þessa landkönnuði að fara í þessa ferð.“

Þessi samskipti fjölskyldnanna og Örlygs leiddu síðan til þess að honum er nú falið að segja heiminum frá.

„Þessi merkilega saga um leiðangur tveggja sennilega frægustu landkönnuða 20. aldarinnar, sem er ósögð saga enn í dag.“

Áttu sameiginlegt að hafa misst barn

Örlygur hefur undir höndum tugi klukkustunda af filmuefni um pólferð félaganna og nú er hann ásamt Elvari Erni Egilssyni og Rafnari Orra Gunnarssyni staddur á Norðurpólnum með afkomendum Hillary og Armstrongs að búa til heimildarmynd um leiðangurinn ´85. Hann mun ekki aðeins segja frá glæstum afrekum þeirra heldur líka frá hinu erfiða og persónulega.

„Þeir vinna þessi gríðarlega stóru afrek en þeir lenda báðir í því að missa barn, þeir missa báðir dætur, ungar dætur og þeir upplifa allan skalann af tilfinningum; hæstu hæðir og lægstu lægðir.“

Á leiðinni heim frá Norðurpólnum lentu Neil og Hillary í vondu veðri og voru veðurtepptir í kofa norðarlega í Kanada í þrjá daga. Það var þá sem þeir opna sig um reynslu af barnmissi.

„Þeir fara að opna sig, segja sögur og tengjast á djúpstæðan hátt og þetta er það sem þeirra afkomendur eru að fara að segja okkur frá í þessari ferð á pólinn.“

Örlygur segir að það sé sannur heiður að vera treyst fyrir verkefninu.

„Ætli ég verði ekki bara á pólnum þegar ég átta mig á því hvað þetta er stórt fyrir mig og hvað við strákarnir sem erum að gera þessa mynd erum heppnir að fá að gera þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×