Skoðun

Mót­mæli bænda í ESB náðu eyrum þingsins í Strass­borg

Erna Bjarnadóttir skrifar

Samtök bænda og samvinnufélaga bænda í aðildarlöndum ESB, Copa-Cogeca, hafa fylgt fast eftir mótmælunum vegna Mercosur-samninganna. Eftir umfangsmiklar aðgerðir í Brussel 18. desember var á ný efnt til aðgerða við Evrópuþingið (European Parliament) í Strassborg þann 20. janúar. Bændur beindu þeim skýru skilaboðum til þingsins að staðfesta ekki samninginn. Niðurstaða þingsins var að færa samninginn í lagalega yfirferð, meðal annars til Evrópudómstólsins – skref sem samtök evrópskra bænda, Copa-Cogeca, túlka sem staðfestingu á réttmæti þeirra áhyggja sem þau hafa dregið fram.

Staðan er því sú að samningurinn milli Evrópusambandsins og Mercosur-ríkjanna er undirritaður en ekki fullgiltur og því ekki kominn til framkvæmda. Þar til niðurstaða Evrópudómstólsins liggur fyrir og þingið tekur endanlega afstöðu er samningurinn því í biðstöðu.

Í yfirlýsingum Copa-Cogeca kemur fram að viðbrögð stofnana ESB hafi hingað til ekki verið í samræmi við alvarleika stöðunnar. Þrátt fyrir aukafundi ráðherra og boðaðar mótvægisaðgerðir telja bændur að grundvallarvandinn hafi ekki verið tekinn föstum tökum. Óstöðugleiki á mörkuðum, vaxandi rekstrarkostnaður og minnkandi tekjur hafi þrengt að rekstrarhæfi margra greina landbúnaðar víðs vegar um Evrópu.

Mercosur-samningarnir hafa orðið táknrænir fyrir þennan vanda. Þar mætast annars vegar kröfur um sífellt strangari framleiðsluskilyrði innan Evrópu og hins vegar viðskiptastefna sem opnar markaði fyrir vörur sem framleiddar eru við allt aðrar forsendur. Sú undirliggjandi spenna sem lengi hefur verið til staðar í landbúnaði er nú orðin pólitískt sýnileg.

Með því að beina kröfum sínum sérstaklega að Evrópuþinginu færðu Copa-Cogeca umræðuna úr almennum aðgerðum og mótmælum yfir í spurningu um pólitískt umboð. Mótmælin snúast ekki lengur eingöngu um reglur, styrki eða einstakar ákvarðanir, heldur um það hvort kjörnir fulltrúar séu reiðubúnir að axla ábyrgð á afleiðingum þeirrar stefnu sem mótuð hefur verið.

Aðgerðir og skýrar kröfur bænda hrintu því af stað atburðarás sem hafði raunveruleg áhrif á ákvarðanatöku, og þannig eru raddir bænda orðnar virkt pólitískt afl. Þetta eru skýr skilaboð um að langvarandi kerfislæg spenna í matvælaframleiðslu verði ekki leyst með því einu að fresta ákvörðunum, hvað þá að halda áfram að vísa vandanum niður á þau sem standa neðst í virðiskeðjunni.

Höfundur er hagfræðingur og formaður Íslandsdeildar Circumpolar Agricultural Association.




Skoðun

Sjá meira


×