Innlent

Þinghlé eftir mánuð

Alþingi Íslendinga kemur ekki saman til fundar alla þessa viku vegna svokallaðrar kjördæmaviku. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík segist undrandi á þessu vikufríi frá þingstörfum."Það er þinghlé í fjóra mánuði yfir sumarið og svo hófst þing að nýju í byrjun október. Hafi menn verið einhvers staðar annars staðar en í kjördæminu sínu í þinghléinu í sumar, þá sé ég ekki að það eigi að bæta það upp með þessari viku." Mörður segist raunar halda að helsta ástæðan fyrir að kjördæmavikan sé nú sé sú að gefa ráðherrum tóm til að koma með ný stjórnarfrumvörp. "Það hafa nánast engin ný frumvörp komið inn. Það hefur mjög lítið sést frá ríkisstjórninni hingað til á þessu þingi." Ein lög hafa verið samþykkt á Alþingi frá því það kom úr sumarfríi fyrir tæpum mánuði. Það er frumvarp um "varnir gegn mengun hafs og stranda". Ekki náðist í Halldór Blöndal, forseta Alþingis sem var á ferð í Norðvesturkjördæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×