Innlent

Við völd í skjóli styrkja

Sverrir Hermannsson, fyrrverandi ráðherra, telur að fletta verði upp í fjármálum ríkisstjórnarflokkanna og þá komi ýmislegt í ljós. "Flokkarnir sitja við völd í skjóli fjár frá olíufélögunum, tryggingafélögunum og kvótagreifunum, sér í lagi Framsóknarflokkurinn. Hitt er svo annað mál að það mun birta af degi hjá okkur. Við þurfum bara að vera réttlát. Auðvitað eigum við að leyfa frelsi til orða og athafna en það þarf að vara sig. Það þarf að setja lög gegn hringamyndunum en við megum ekki hindra menn í framtaki," segir hann. Sverrir telur rangt að virkt eftirlit hafi verið samkvæmt samkeppnislögum. "Málið er alveg óskaplegt og raunar lygilegt. Ef bara væri þessi eini pottur brotinn þá myndu menn frekar láta huggast. Þetta verður auðvitað að ganga sína leið fyrir dómstólum en ég held að það séu miklu fleiri pottar brotnir," segir hann og nefnir t.d. hjá einkavæðingarnefnd, sölu á Búnaðarbanka, íslenskum aðalverktökum og sölu á eign Landsbankans í VÍS.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×