Innlent

Lítið traust á leiðtogum

Tveir af hverjum þremur Íslendingum telja að stjórnmálaleiðtogar láti undan þrýstingi þeirra sem hafa meiri völd en þeir sjálfir og góður meirihluti landsmanna telur að viðskiptaleiðtogar hafi of mikil völd og ábyrgð. Næstum þrír af hverjum tíu telja íslenska viðskiptaleiðtoga óheiðarlega og tveir af hverjum tíu segir það sama um stjórnmálaleiðtoga. Þetta er meðal niðurstaðna úr árlegri könnun Gallup á afstöðu til stjórnmála- og viðskiptaleiðtoga. Einnig var spurt um framtíðarhorfur í efnahags- og öryggismálum. Hugur fólks í yfir 60 löndum var kannaður. Helmingur þjóðarinnar telur að heimurinn fari versnandi og að næsta kynslóð muni lifa í óöruggari heimi en nú er. Tveir af hverjum tíu eru hins vegar þeirrar skoðunar að heimurinn verði öruggari og þrír af hverjum tíu telja að engin breyting verði á, heimurinn verði hvorki betri né verri. Fjórtán prósent landsmanna telja að efnahagsleg velsæld komandi kynslóða verði minni en nú er en meirihlutinn giskar á að hún verði söm og nú eða betri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×