Innlent

Feluskattar vega upp skattalækkun

Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði að það yrði mikill hamingjudagur þegar tekju- og eignaskattsfrumvarp ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt á Alþingi, þegar hann mælti fyrir nefndaráliti ríkisstjórnarflokkanna í gær. "Þetta er mikill hamingjudagur því verið er að móta þjóðfélagið til framtíðar. Fólki er umbunað fyrir dugnað og um leið er furmvarpið félagslega réttlátt." Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði skattalækkanirnar hreinar sjónhverfingar og enga tilviljun að þær kæmu að mestu til framkvæmda rétt fyrir næstu kosningar. Nefndi Össur sextán skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefði lagt fram að undanförnu. "Það á að fjármagna skattalækkanirnar með felusköttum. Í lok ársins 2005 mun ríkið hafa innheimt meira í formi hækkaðra skatta sem verið er að samþykkja þessa dagana en felast í tekjuskattslækkunum stjórnarinnar." Pétur H. Blöndal sagði að eina skattahækkunin sem samþykkt hefði verið hefði verið umsýslugjald fasteigna, 150 krónur á mánuði fyrir til dæmis tuttugu milljóna eign. "Eðlileg krónutöluhækkun til samræmis við verðbóglu er ekki skattahækkun." Einar Már Sigurðarson mælti fyrir áliti fyrsta minnihlutans, Samfylkingarinnar: "Meginniðurstðan er sú að þeir sem hafa mikið fyrir fá meira." Einar Már sagði að persónuafsláttur hefði ekki hækkað í takt við verðbólgu frá því að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu stjórn 1995. "Miðað við launavísitölu vantar 40 milljarða, en 15 milljarða miðað við neysluvísitölu." Pétur H. Blöndal sagði að taka yrði með í reikninginn að persónuafsláttur hefði lækkað í takt við tekjuskattslækkun til að halda verðgildi frítekjumarksins. Ef tekið væri tillit til þess að iðgjöld til lífeyrissjóða væru orðin skattfrjáls hefði þróunin verið "nokkurn veginn" í takt við verðlag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×