Innlent

Kaupin á verkum Sigmunds einsdæmi

Samningur upp á 18 milljónir sem forsætisráðuneytið hefur gert við teiknarann Sigmund um kaup á 10 þúsund myndum hans sem birst hafa í Morgunblaðinu hefur vakið talsverða athygli. Fjárhæðin er nærri tvisvar sinnum sú upphæð sem Listasafn Íslands fær á fjárlögum til listaverkakaupa. Ólafur B. Kvaran, forstöðumaður Listasafnsins, segir að sú upphæð hafi farið lækkandi, hafi til skamms tíma verið 12,5 milljónir króna en hafi nú verið lækkuð í 10,8 milljónir. Listfræðingar eru á einu máli um að ekkert fordæmi sé fyrir því að listaverk séu keypt af einum listamanni fyrir slíka fjárhæð. Halldór Björn Runólfsson listfræðingur segir að 18 milljónir séu gríðarlega há fjárhæð í hinum fjárvana íslenska listheimi. Þannig slagar fjárhæðin upp í árlegan rekstrarkostnað Listasafns Akureyrar og er fimm milljjónum hærri en fjárveiting Listasafns Reykjavíkur til listaverkakaupa. Halldór Björn segir að þetta sé út úr öllu korti: "Þegar þetta er borið saman við fjárveitingar ríksins til listaverkakaupa getur maður ekki annað sagt en að þetta sé svívirða." Hannes Sigurðsson, listfræðingur og forstöðumaður Listasafns Akureyrar, segir að engin dæmi séu fyrir slíkum stórkaupum af einum myndlistarmanni: "Sigmund tilheyrir óneitanlega sjónlistum. Var gengið framhjá Listasafni Íslands, sem á lögum samkvæmt að vera til ráðuneytis um listaverkakaup?" Halldór Björn Runólfsson bendir svo á að teikningar Sigmunds hafi birst í Morgunblaðinu og á bókum og upphaflegu teikningarnar hafi ekkert sérstakt gildi. "Þær hafa ekkert ákveðið grafískt gildi." Í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins segir að verk Sigmunds hafi verið keypt í tilefni 60 ára afmælis lýðveldisins Íslands og jafnframt í tengslum við 100 ára afmæli heimastjórnar. Fréttablaðið óskaði eftir viðtali við Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra um þetta mál en hann svaraði ekki skilaboðum þar að lútandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×