Innlent

Borgin hefur ekki fylgt máli eftir

Í lok nóvember stóð mikill styr um sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg og íbúar mótmæltu þegar steinsteypukerjum var stillt upp fyrir framan það. Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, sagði þá að það kæmi til greina af sinni hálfu að farið yrði fram á að sendiráð Bandaríkjanna yrði fært og undir það tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir, núverandi borgarstjóri. Steinunn sagði í viðtali við Fréttablaðið sunnudaginn 27. nóvember að málið yrði tekið fyrir í borginni í vikunni á eftir. "Þetta hefur ekki beinlínis komið inn á borgarráðsfund," segir Árni Þór Sigurðsson. "Það var talað um að gera það en það hefur ekki verið sett á dagskrá." Árni er sjálfur á leið í leyfi frá störfum og reiknar því ekki með að vera á borgarráðsfundum. Hann gerir ráð fyrir því að borgarstjóri muni sjá til þess að málinu verði fylgt eftir. Hann segir að íbúar við Laufásveg hafi ekki haft samband við samgöngunefnd vegna málsins síðastliðnar þrjár vikur. Rætt var um að málið þyrfti að vinna í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Utanríkisráðuneytið hefur ekki haft samband við samgöngunefnd að sögn Árna, en hann útilokar ekki að það hafi sett sig í samband við skrifstofu borgarstjóra. Ljóst er að málið verður ekki tekið fyrir í borginni fyrir jól því næsti borgarráðsfundur verður ekki fyrr en á milli jóla og nýárs. Árni segir ekki loku fyrir það skotið að málið verði tekið fyrir þá, en veit þó ekki til þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×