Innlent

Enn dragast mál Fischers

Ekki varð af fundi Masako Suzuki, lögmanns skákmeistarans Bobby Fischer, með fulltrúum japanska utanríkisráðuneytisins í gær, en á honum stóð til að ræða mögulega lausn hans úr haldi og komu hingað til lands. Íslensk stjórnvöld hafa sem kunnugt er boðið Fischer landvistarleyfi, en bandarísk innflytjendayfirvöld hafa haldið honum frá því í sumar þegar hann var handtekinn með ógilt vegabréf. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, ræddi við hann í gærmorgun og kvað vera ágætt í honum hljóðið. Útlit er þó fyrir að málarekstur vegna hans taki enn nokkurn tíma ytra. Ekki verður af fundi með yfirvöldum í dag þar sem í Japan er frídagur vegna afmælis keisarans. Þá þykir ólíklegt að teknar verði afgerandi ákvarðanir á föstudaginn, verði af fundi þá. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, segir íslensk yfirvöld ekki munu aðhafast frekar í málefnum Fischers á meðan honum er haldið í Japan, það sé undir stjórnvöldum þar komið hver næstu skref yrðu. "Við erum búin að gera það sem við getum. Málið er hjá Japönunum," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×