Innlent

Farsælla að bjóða fram sér

Framsóknarflokkurinn hefur sjaldan eða aldrei verið áhrifameiri í íslenskum stjórnmálum en um þessar mundir þegar forystumaður hans Halldór Ásgrímsson fagnar fyrstu hundrað dögum sínum í embætti. En á sama tíma hefur flokkurinn varla í annan tíma notið eins lítils fylgis meðal kjósenda. Nýtilkomin stjórnarforysta Framsóknarflokksins skilaði flokknum litlu í síðustu fylgiskönnun Gallups í nóvember. Þar fékk flokkurinn 11.2% sem er örlitlu minna en mánuðina þar á undan og talsvert minna en í kosningunum 2003 en þá fékk hann 17.7%. Halldór Ásgrímsson segir í viðtali sem birtist á morgun í tilefni þess að fyrstu hundrað dagar hans í embætti eru liðnir, að hann telji ekki að flokkurinn sé að líða fyrir langt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. -Er ímynd Framsóknarflokksins orðin hættulega samtvinnuð ímynd Sjálfstæðismanna? "Nei, ég tel það ekki vera vandamál. Þetta eru báðir sterkir flokkar og samstarfið hefur verið farsælt." Enn verri er svo útkoma í könnun Gallups sem gerð var um miðjan nóvember um borgarmál. Þar var spurt um fylgi við einstaka flokka innan R-listans og var niðurstaðan sú að Framsókn hefði fengið 4.4%, engan mann kjörinn og minna fylgi en Frjálslyndi flokkurinn. "Ég tel alveg ljóst að R-listinn gagnist Samfylkingunni og Vinstri grænum mun betur en Framsóknarflokknum. Fólk kennir R-listann meira við þessa flokka en Framsóknarflokkinn, það er ekkert nýtt." -En nú er Alfreð Þorsteinsson mjög áberandi og Sjálfstæðismenn segja hann í rauninni yfirborgarstjóra? "Ég veit ekki hvort hægt er að draga miklar ályktanir út frá skoðanakönnunum, það eru ekki alltaf skýringar á því sem þær segja á milli kosninga." -Telurðu að Framsókn eigi að bjóða fram sér? "Það verður að meta í hvert skipti. Ég tel almennt farsælla fyrir flokka að bjóða fram sér. Það takast hins vegar ólík sjónarmið þarna á. Ég bendi á það eru fleiri dæmi um þetta en í Reykjavík. Til dæmis hefur Framsóknarflokkurinn boðið fram með Sjálfstæðisflokknum á Húsavík."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×