Innlent

Björn Ingi ætlar í fyrsta sæti

Björn Ingi Hrafnsson segist vonast eftir drengilegri kosningabaráttu sem auka muni veg Framsóknarflokksins í borginni.
Björn Ingi Hrafnsson segist vonast eftir drengilegri kosningabaráttu sem auka muni veg Framsóknarflokksins í borginni.

Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur lýst yfir framboði sínu til fyrsta sætis í væntanlegu próf­­­kjöri Fram­sóknar­flokks­ins í Reykjavík vegna komandi borgar­stjórnar­kosn­inga. Alfreð Þorsteins­son, oddviti flokksins í borg­inni, er að hverfa til annarra starfa. Anna Kristinsdóttir borgar­full­trúi hefur þegar lýst yfir fram­boð sínu í fyrsta sæti.

Björn Ingi segir tvær ástæður helstar fyrir ákvörðun sinni. "Í fyrsta lagi starfa ég í stjórnmálum og hef brennandi áhuga á borgarmálum. Sem varaþingmaður Reykvíkinga hef ég líka getað kynnt mér þau mál sem hæst bera, myndað mér skoðun og komið fram með hugmyndir. Síðan má kannski segja að hin ástæðan sé þessi kaflaskil sem eru núna í pólitíkinni í Reykjavík," segir hann og vísar til þess að Reykjavíkurlistasamstarfið sé að líða undir lok og Framsókn bjóði fram undir eigin merkjum í fyrsta sinn síðan árið 1990, auk þess sem oddviti flokksins í borginni hafi ákveðið að draga sig í hlé.

"Við það skapast tækifæri og ég vil eyða um það allri óvissu því mitt nafn hefur mikið verið nefnt og ég fundið fyrir góðum stuðningi sem ég er þakklátur fyrir."

Prófkjör Framsóknarflokksins verður haldið 28. janúar næstkomandi. Það mun verða svokallað opið prófkjör þar sem flokksbundnir og þeir sem skrifa undir stuðning við stefnu flokkins, án þess þó að þurfa að ganga í hann, fá að taka þátt. "Ég er hvergi banginn og finn fyrir miklum stuðningi," segir Björn Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×