Innlent

Dagur útilokar ekki framboð

Á fundi fulltrúaráðs Samfylkingarinnar á miðvikudagskvöld var ákveðið að halda opið stuðningsmannaprófkjör vegna borgarstjórnarkosninga í Reykjavík helgina 11.-12. febrúar. Enn hefur ekki verið ákveðið hvort allir sem lýsa yfir stuðningi við Samfylkingu mega kjósa, eða kosning verði opin öllum. Einnig er prófkjörið opið frambjóðendum, þar sem óflokksbundnir fulltrúar geta boðið sig fram, hafi þeir stuðning 30-50 félaga í flokknum. Því hefur verið haldið fram að sú regla sé hönnuð til að auðvelda Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa að bjóða sig fram í prófkjörinu. Dagur segir slíkt ekki líklegt. "Ef ég væri að hugleiða framboð, myndi ég bara ganga til liðs við flokk," segir Dagur. Hann útilokar ekki frekari þátttöku í pólitík, en segist ekkert hafa breyst nú. Stefán Jón Hafstein, sem býður sig fram í fyrsta sæti listans, segist mjög ánægður með að hafa prófkjörið opið og segist sannfærður um að það styrki bæði flokkinn og hans stöðu. Við dagsetninguna er hann hins vegar ósáttur. "Því fyrr sem við eyðum óvissuþáttum, því betra. Ég reyndi ekki að vinna gegn tillögunni en hefði frekar kosið að klára þetta í nóvember með Sjálfstæðisflokknum." Ekki náðist í Steinunni Valdísi Óskarsdóttur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×