Innlent

Ráðherra til fundar um bensínstyrk

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að funda með forystumönnum Öryrkjabandalagsins um afnám bensínstyrks til hreyfihamlaðra öryrkja og ellilífeyrisþega eftir helgi. „Þessar aðgerðir þarfnast lagabreytingar. Ég hef ákveðið að fara rækilega yfir þetta mál með forsvarsmönnum Öryrkjabandalagsins áður en ég legg það frumvarp fram," sagði Jón í umræðum um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í gær. „Bensínstyrkurinn hefði að óbreyttu- orðið um 750 milljónir króna á næsta ári," sagði heilbrigðisráðherra. Með afnámi hans ætti tekjutryggingarauki aftur á móti að hækka um liðlega fimmtung eða sem nemur 400 milljónum króna. Jafnframt væri ráðgert að 100 milljónum króna yrði varið til endurhæfingar en 220 milljónum króna til að mæta almennum hækkunum í almannatryggingakerfinu. „Í hópi hreyfihamlaðra fá bensínstyrkinn þeir einir sem eiga bíl en hinir ekki. Niðurfelling á bifreiðagjöldum og fleira hefur ekki gagnast þeim sem ekki eiga bíl eða hafa ekki ráð á því. Þetta eru oft þeir sem sjá nú fram á fimmtungs hækkun tekjutryggingaraukans," segir Jón. Hann segir bensínstyrkinn að ýmsu leyti gallaðan og ekkert óeðlilegt við að endurskoða hann. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnaði því að ráðherrann hefði ákveðið að ræða við forystu Öryrkjabandalagsins, en sagði að betra hefði verið að gera það áður. „Ég vil kalla þennan tillöguflutning mistök. Eg minni hæstvirtan ráðherra á að meginreglur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra kveða á um þá skyldu stjórnvalda að hafa samráð við samtök fatlaðra áður en gripið er til aðgerða gegn þeim," sagði Helgi. 6800 manns fá nú bensínstyrk þar af 2650 öryrkjar og rúmlega 4000 ellilífeyrisþegar. Tæplega 4600 manns missa bensínstyrkinn. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×