Innlent

26. grein stjórnarskrár standi

Þjóðarhreyfingin varar eindregið við því að hróflað verði við valdastöðu forseta Íslands. Verði það gert þá gæti hann allt eins verið þingkjörinn. Stjórnarskrárnefnd var skipuð 4. janúar á þessu ári og er hlutverk hennar að endurskoða stjórnaskrána og þá um leið valdastöðu forseta. Þjóðarhreyfingin leggst alfarið gegn því að við yfirstandandi enduskoðun stjórnarskrár, verði hróflað við 26. grein núgildandi stjórnarskrár sem kveður á um að forseti geti hafnað lagafrumvarpi og lagt það undir þjóðaratkvæðisgreiðslu. Í yfirlýsingu frá þjóðarhreyfingunni segir að ef þessi valdheimild verði tekin af forsetaembættinu þá gæti hann allt eins verið þingkjörinn. Þar segir að reynslan sýni að þessi valdheimild muni ávallt verða notuð af hófsemi og varfærni, þar sem henni hefur aðeins einu verið beitt á sextíu árum. En þrátt fyrir það sé hún þinginu mikilvægt aðhald, sem ekki megi afnema. Ólafur Hannibalsson, blaðamaður og talsmaður þjóðarhreyfingarinnar segir ástæðu fréttatilkynningarinnar vera þá að Þjóðarhreyfingin sé ósátt við orð forsætisráðherra sem hann lét falla í stefnuræðu sinni á dögunum þar sem hann sagði að breyta þyrfti valdastöðu og embætti forsetans. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra og formaður stjórnarskrárnefndar segir að nefndin sé ekki enn komin að efnislegri umfjöllun um stöðu forsetnas og því engar ákvarðarnir verið teknar. Hann sagði jafnframt að nefndin tæki erindi Þjóðarhreyfingarinnar til umfjöllunar bærist það henni. Nefndin á að skila áliti varðandi breytingar á stjórnaskrá í árslok 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×