Innlent

Lóðaverð hækkar um fimmtíu prósent

Lóðaverð í Hafnarfirði hækkar um fimmtíu prósent með nýjum úthlutunarreglum og skilmálum sem samþykktir voru í bæjarstjórn á þriðjudaginn. Bæjarstjórinn segir helstu ástæðuna vera brask þeirra sem hafa fengið úthlutað lóðum langt undir markaðsverði. Hafnfirðingar ganga ekki lengur fyrir um lóðir. Pólitísk samstaða var um málið, því níu bæjarfulltrúar af ellefu samþykktu tillögurnar og tveir sátu hjá. Þær fela í sér nýtt gjald fyrir byggingarrétt í Hafnarfirði sem hækkar verðið um fimmtíu prósent. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir lóðaverð í bænum hafa verið lágt miðað við annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eða um 4 milljónir á lóð fyrir einbýlishús. Einstaka lóðir hafa svo farið útboðsleið og þar hafi verðið komist upp fyrir 10 milljónir. Það er því brask sem neyðir Hafnfirðinga til að hækka lóðverðið og það er Lúðvík ekkert feiminn við að viðurkenna. Borið hefur á því að lóðum hefur verið úthlutað til manna sem síðan hafa selt þær áfram og grætt á milljónir, til þess sé ekki verið að úthluta þessum takmörkuðu gæðum að sögn Lúðvíks. Það er ekki bara lóðaverðið sem hækkar, nú kostar líka þúsund krónur að sækja um lóð, jafnvel þó viðkomandi verði hafnað um lóð þegar til kastanna kemur. Lúðvík segir að allt upp í 2000 umsóknir hafi borist vegna lausra lóða og því sé þúsund króna gjald vegna umsýslu hóflegt að hans mati.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×