Innlent

Eftirlaun ráðherra til skoðunar

Misræmi á kostnaði vegna eftirlaunafrumvarpsins kemur forsætisráðherra á óvart. Hann segir stjórnvöld hafa rætt um að endurskoða lögin, en það verði ekki gert nema með samkomulagi allra stjórnmálaflokka. Alþingi samþykkti breytt lög um eftirlaun æðstu embættismanna og þingmanna rétt fyrir árslok 2003, og þiggja níu fyrrverandi ráðherrar nú eftirlaun, þótt þeir séu í öðrum störfum hjá ríkinu. Samkvæmt tölum sem Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur bent á, jukust lífeyrisskuldbindingar ríkisins, vegna eftirlaunalaganna, um 650 milljónir á árinu 2004, sem er 250 milljónum krónum meira en gert var ráð fyrir. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins verða boðaðir á fund fjárlaganefndar síðar í vikunni, til að gera grein fyrir framúrkeyrslunni. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, segir stjórnvöld hafa rætt um að endurskoða eftirlaunalögin. Hann hafi sjáflur skilað tillögu til forsætisnefndar síðastliðið vor. Hann sagði að þær hugmyndir væru til athugunar en benti einnig á að breytingar á eftirlaunum ráðherra yrðu ekki gerðar nema með samkomulagi á milli flokkanna. Hann sagði eðlilegt að vinna málið áfram í forsætisnefnd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×