Innlent

Björn segist ekki vanhæfur

Dómsmálaráðherra telur sig ekki vanhæfan til að skipa nýjan saksóknara í Baugsmálinu. Lúðvík Bergvinsson þingmaður Samfylkingarinnar spurði dómsmálaráðherra á Alþingi í dag hvort ekki væri óheppilegt að hann viki ekki sæti þegar kæmi að því að skipa nýjan saksóknara í ljósi yfirlýsinga hans og annarra forystumanna í Sjálfstæðisflokknum um Baugsmálið. Jónína Bjartmars varaformaður allsherjarnefndar sagði að dómsmálaráðherra sjálfur þyrfti að íhuga alvarlega hæfi sitt til að skipa nýjan saksóknara í ljósi yfirlýsinga sinna um málið. Hún ætlaði þó ekki að gerast dómari. Jónína sagði hins vegar að dómsmálaráðherra yrði að gæta þess að gefa ekki tilefni til þess að óhlutdrægni hans sé dregin í efa. Það sé inntakið í hæfisreglum jafnt innan stjórnsýslunnar og hjá dómstólum. Almenningur á rétt á því að geta borið ótakmarkað traust til sjálfstæði og óháðra dómstóla. Umræða fór fram um málið á Alþingi í dag. Stjórnarandstaðan sagði það verða óheppilegt ef dómsmálaráðherra skipar nýjan saksóknara. Hættan væri að málið kynni að hljóta enn frekara skipbrot. Bjarni Benediktsson sagði engin fagleg rök fyrir því að dómsmálaráðherra væri vanhæfur. Björn Bjarnason þakkaði þingmönnum umhyggjuna. Hann sagði þetta þó engu breyta þar sem hann væri ekki vanhæfur í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×