Innlent

Ágreiningur um varnarsamninginn

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar í gær um viðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna og framtíð varnarsamningsins. Hann vísaði til fregna um að íslenska viðræðunefndin hefði farið fýluferð til Bandaríkjanna og uppstytta hefði orðið í viðræðunum. Steingrímur sagði að málið virtist blasa þannig við Bandaríkjamönnum að Íslendingar hefðu hætt við að mæta á fundinn vegna himinhárra krafna um kostnaðarhlutdeild í rekstri Keflavíkurflugvallar. „Snerist þetta um peninga en ekki loftvarnir? Eru menn á hnjánum að biðja um tilgangslaus hernaðarumsvif peninganna vegna," spurði Steingrímur. Geir H. Haarde utanríkis-ráðherra lýsti vonbrigðum með að ekki skyldi hafa þokast lengra í samningaviðræðunum í þetta sinn. „Það verða auðvitað fundir í málinu. Það er ekki vitað með hvaða hætti þeir verða né hvenær. Við höfum lýst því yfir að við séum tilbúin að taka ríkari þátt i rekstri flugvallarins en verið hefur vegna þess að borgaraleg umsvif hafa aukist. Bandaríkjamenn hafa önnur sjónarmið. Það er lengra bil á milli en við höfðum gert ráð fyrir." Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, sagði að þetta ýtti undir þá skoðun að meiri óvissa ríkti um samningaviðræðurnar en margir vildu viðurkenna og spurði hvort verðmiðinn á arekstri Keflavíkurflugvallar væri hærri en svo að stjórnvöld treystu sér ekki til að reka hann.Þórunn áréttaði að málið yrði að fá umfjöllun í utanríkismálanefnd og undir það tók Steingrímur. „Enginn er hér á hnjánum," sagði Geir. Tvö ríki væru að fjalla um samning frá 1951 og bókanir hefðu verið gerðar um málið 1994 og 1996. „Það liggur ekki fyrir – og það er skýringin á því hvers vegna efnislegar samningaviðræður eru ekki hafnar – nákvæmlega á hvaða grunni þær eiga að vera. Og um það eru mismunandi sjónarmið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×